Fara yfir á efnisvæði

Seinni eftirlitsferð á Selfoss og í Hveragerði

04.09.2015

Neytendastofa gerði könnun á ástandi verðmerkinga og hvort að það væri ekki samræmi á milli hillu- og kassaverðs hjá 54 verslunum í Hveragerði og á Selfossi. Kom í ljós að verðmerkingar voru ekki í lagi í 23 fyrirtækjum. Þegar könnuninni var fylgt eftir kom í ljós að níu fyrirtæki höfðu ekki farið eftir fyrirmælum Neytendastofu um að lagfæra verðmerkingarnar hjá sér.

Um er að ræða þrjár matvöruverslanir, Bónus í Hveragerði og á Selfossi, og Krónuna á Selfossi Í þetta skiptið voru allflestar vörurnar sem skoðaðar voru rétt verðmerktar þó örfá tilvik hafi komið upp þar sem verð vörunnar var hærra á kassa en töluvert var um óverðmerktar vörur í verslununum.

Byggingavöruverslunin Byko á Selfossi hafði bætt ástandið á óverðmerktum vörum en nú var talsvert um ósamræmi á hillu- og kassaverði.

Í Ísbúð Huppu á Selfossi voru enn allar vörur í kæli óverðmerktar. Hjá Apótekaranum í Hveragerði var mikið um óverðmerktar vörur í versluninni eins og í fyrri könnunarferðinni og sömu sögu er að segja um bensínstöðina Olís Arnbergi á Selfossi. Vörur í útstillingarglugga tískufataverslunin Gallerí Ozone voru enn óverðmerktar.

Við seinni könnun á veitingastöðum kom í ljós að veitingastaðurinn Hofland setrið í Hveragerði hafði enn ekki sett inn upplýsingar um magn drykkja matseðilinn.

Neytendastofa mun halda áfram verðmerkinga- og verðkannanaeftirliti sínu og gera athugun hjá fleiri verslunum. Neytendur geta komið ábendingum á framfæri í gegnum rafræna Neytendastofu á vefslóðinni neytendastofa.is.

TIL BAKA