Fara yfir á efnisvæði

Menntamálastofnun innkallar 2700 endurskinsmerki

23.03.2016

FréttamyndNeytendastofa hefur tekið ákvörðun um að setja bann við afhendingu og láta innkalla 2700 merki sem Menntamálastofnun gaf leik- og grunnskólabörnum í Kópavogi. Innköllunin er sett í kjölfar tímabundins afhendingabanns Neytendastofu.

Um er að ræða kringlótt gult merki, 5cm, með broskalli á annarri hliðinni og hinni hliðinni stendur „Jákvæð samskipti“ fyrir ofan mynd og „mms.is“ fyrir neðan myndina. Endurskinsmerkin bera engar merkingar frá framleiðanda. Því er ekki hægt að sjá að merkin séu framleidd í samræmi við lög, reglur og staðla og hafi þar af leiðandi verið prófuð sem slík.

Menntamálastofnun gat ekki lagt fram gögn sem sýndu fram á að merkin hefði verið búin til sem endurskinsmerki og ljóst var að þau myndu ekki berast. Neytendastofa taldi því ekki hægt að gefa merkin sem endurskinsmerki. Hætta væri á að þau veittu falskt öryggi og þar sem merkin eru fyrir ung börn þá var tekin ákvörðun um að setja afhendingar bann og innkalla merkin.

Í framhaldi þessa máls hvetur Neytendastofa neytendur til að skoða allar merkingar og upplýsingar sem fram koma á endurskinsmerkjum til að tryggja öryggi sitt sem best. Um leið viljum við ítreka að það er ekki hægt að sjá hversu gott endurskinsmerki eru með því einu að horfa á þau eða prófa þau sjálf. Viðurkennd endurskinsmerki hafa verið prófuð sérstaklega.

Neytendastofa hvetur innflytjendur og dreifingaraðila endurskinsmerkja að vera vissir um að merkin séu af góðum gæðum. Merkin eiga að vera CE merkt, merkt með nafni framleiðanda og tegund eða heiti vörunnar. Auk þess eiga að fylgja íslenskar leiðbeiningar ásamt nánari upplýsingum.

Ákvörðunina má lesa í heild sinni hér.

TIL BAKA