Fara yfir á efnisvæði

Sölu- og afhendingarbann á leikföng í versluninni Extrakaup

26.10.2016

FréttamyndNeytendastofa hefur lagt sölu- og afhendingarbann á Hello Kittý mjúkdýr og Önnu og Elsu dúkkur í versluninni Extrakaup þar sem ekki er hægt að sýna fram á að leikföngin séu í lagi.

Neytendastofa fékk ábendingu um að leikföng í Extrakaup væru ekki í lagi. Í kjölfarið var farið í verslunina og tekin eintök af Önnu og Elsu dúkkum og Hello Kittý mjúkdýrum til nánari skoðunar. Kom í ljós að á Hello Kittý mjúkdýrin vantaði CE merki en leikföng sem markaðssett eru hér á landi eiga að vera CE merkt. Þá voru mjúkdýrin byrjuð að rifna meðfram saumum. Neytendastofa óskaði því eftir gögnum sem sýnt gætu fram á öryggi varanna. Engin gögn bárust stofnuninni. Það er því ekki hægt að sjá hvort að t.d. saumar og frágangur mjúkdýranna sé í lagi. Þá geta börn sett fyllinguna í bangsanum upp í sig ef saumarnir byrja að rifna. Þá bárust engin gögn varðandi pakkninguna sem dúkkurnar Anna og Elsa voru í, þrátt fyrir að CE merkið hefði verið til staðar. Þar af leiðandi voru ekki til nein gögn t.d. um efnainnihald vörunnar.

Athygli skal þó vakin á því að engar tilkynningar hafa borist Neytendastofu um slys af völdum ofangreindra leikfanga

Ákvarðanirnar má lesa í heild sinni hér.

TIL BAKA