Fara yfir á efnisvæði

Rafræn skilríki – neytendur bera ábyrgð á PIN

10.11.2016

Áfrýjunarnefnd neytendamála hefur staðfest ákvörðun Neytendastofu í máli nr. 35/2016 þar sem einstaklingur einstaklingur til Neytendastofu vegna meints öryggisgalla rafrænna skilríkja sem fyrirtækið Auðkenni gefur út til notkunar í farsímum. Í kvörtun neytanda var bent á að unnt væri að komast yfir PIN númer með ólögmætum hætti með því að fá farsíma einstaklings að láni í tvígang og væru því skilríkin ekki varin á fullnægjandi hátt og lausnin uppfyllti því ekki kröfur laga nr. 28/2001, um rafrænar undirskriftir. Neytendastofa hafnaði kröfu um aðgerðir og benti á að neytendur bera ábyrgð á PIN telst ekki til undirskriftargagna í skilningi laganna. Aldrei sé unnt að tryggja neytendur gegn allri misnotkun. Neytendastofa hefur eftirlit með starfsemi vottunaraðilans Auðkennis ehf. og allur undirskriftarbúnaður og starfsemi uppfylli allar kröfur gildandi laga og reglugerða. Af framangreindum ástæðum taldi því Neytendastofa ekki tilefni til aðgerða. Sú ákvörðun var kærð til áfrýjunarnefndar neytendamála.

Með úrskurði áfrýjunarnefndar neytendamála nr. 5/2016 hefur nefndin nú staðfest framangreinda ákvörðun Neytendastofu.

Í úrskurði nefndarinnar segir meðal annars að samkvæmt gildandi réttarheimildum um öruggan undirskriftarbúnað sé mat Neytendastofu rétt og ekki sé unnt að túlka lög nr. 28/2001 um rafrænar undirskriftir þannig að vottunaraðila beri fortakslaust að gera rafrænan undirskriftarbúnað þannig úr garði gerðan að komið sé í veg fyrir þá tegund misnotkunar sem kærandi vari við í erindi sínu. Auðkenni ehf hafi lagt fram vottorð þess efnis að lagakröfum um öryggi undirskriftarbúnaðar samkvæmt lögum nr. 28/2001 um rafrænar undirskriftir sé fullnægt til Neytendastofu sem fer með eftirlit með starfseminni.
Ákvörðun Neytendastofu er því staðfest.

Úrskurð árýjunarnefndar neytendamála má lesa hér.

TIL BAKA