Fara yfir á efnisvæði

Sölubann á 89 tegundir af þyrilsnældum

01.11.2017

FréttamyndNeytendastofa hefur lagt sölubann á 89 tegundir af þyrilsnældum (e. spinner) sem fluttar voru inn af BSV ehf. og seldar voru í verslun Heimkaupa. Innflytjandi leikfanganna gat ekki sýnt fram á gögn um að leikföngin væru framleidd í samræmi við viðeigandi kröfur. Margar af þyrilsnældunum voru merktar þannig að þær væru fyrir börn á öllum aldri. Þó losnuðu smáir hlutir auðveldlega frá sumum þeirra og voru brúnir sumra þyrilsnældanna beittar. Brúnir leikfanga eiga að vera hannaðar og gerðar þannig að minnst áhætta sé á meiðslum þegar komið er við þau. Leikföng sem ætluð eru börnum undir 36 mánaða aldri verður að skoða sérstaklega. Hættulegt getur verið fyrir lítið barn að setja smáa muni upp í munn vegna hættu á því að hluturinn valdi köfnun. Ef að leikfang hentar ekki börnum undir þriggja ára aldri ber að setja viðvörunarmerkingu þess efnis á leikfangið eða á pakkningu þess. Umrædd leikföng báru ekki fullnægjandi viðvörunarmerkingar auk þess sem öðrum merkingum var ábótavant.
Þar sem leikföngin voru ekki í lagi þá hefur Neytendastofa bannað sölu á þeim. Hættulega eiginleika leikfanga ber að kanna áður en leikfang er sett á markað. Framleiðandi þarf til að mynda að útbúa samræmisyfirlýsingu, framkvæma áhættumat og vara neytendur við þeirri hættu sem getur stafað af notkun þess, með viðeigandi merkingum. Að framleiðsluferli loknu, þar sem gætt hefur verið að þar til gerðum kröfum, má festa CE-merki á leikfangið. Innflytjanda leikfanga ber að tryggja að prófanir hafi verið framkvæmdar og að gögn hafi verið útbúin áður en leikföngin eru boðin neytendum.

TIL BAKA