Fara yfir á efnisvæði

Tillögur um takmörkun litarefna í húðflúrlitum (tattú)

20.12.2017

Fréttamynd

Húðflúr (tattú) hefur undanfarin ár notið mikilla vinsælda og talið að um 12% neytenda á EES svæðinu hafi fengið sér húðflúr og væntanlega um helmingi fleiri á aldrinum 18- 35 ára.

Um litarefnin gilda ekki samræmdar reglur og af þeirri ástæðu óskaði framkvæmdastjórn ESB eftir því að Evrópska efnafræðistofnunin (ECHA) myndi gera úttekt á þeirri áhættu sem fylgir notkun litarefna. Auk þess að koma með tillögur um þau efni sem nauðsynlegt er að verði bönnuð í húðflúrlitum þannig að þeir séu öryggir fyrir líf og heilsu neytenda. Skýrslu hefur verið skilað og þar er að finna tillögur um að banna um 4000 efni til notkunar í húðflúrlitum. Í mörgum tilvikum er um að ræða efni sem nú þegar eru bönnuð í snyrtivörum og geta verið krabbameinsvaldandi eða valdið alvarlegri ertingu á húð.

Flest þessara efna eru nú þegar á lista í tilmælum ESB sem ekki eru lagalega bindandi fyrirmæli (ResAP(2008)1) en aðeins 7 EES ríki hafa sett sérstök lög á grundvelli tilmælanna og bannað þessi efni.

ECHA hefur ákveðið að setja í opið umsagnarferli tillögur sínar þann 20 desember 2017 og er umsagnafrestur 6 mánuðir eða til 20 júní 2018. Allir sem telja ástæðu til að koma á framfæri athugasemdum við tillögurnar geta komið þeim á framfæri á sérstöku vefformi sem nálgast má hér á vefsetri ECHA.

Að loknum umsagnarfresti mun ECHA afla umsagnar frá vísindanefnd efnafræðistofnunarinnar sem mun leggja mat á innkomnar athugasemdir og sjónarmið.

Neytendastofa vill hér með vekja athygli innlendra aðila á umræddum tillögum og umsagnarferlinu en á undanförnum árum hafa ýmis konar litarefni verið innkölluð í gegnum RAPEX tilkynningakerfi ESB um hættulegar vörur.

TIL BAKA