Fara yfir á efnisvæði

Auglýsingar um Felix tómatsósu bannaðar

29.05.2018

Neytendastofu barst erindi Innnes ehf. þar sem kvartað var yfir fullyrðingum í auglýsingum Ásbjörns Ólafssonar ehf. um Felix tómatsósu. Auglýsingarnar sýndu myndskeið þar sem sett var saman máltíð og útlistað hvað færi í hverja máltíð. Í lokin var sýndur háls af tómatsósuflösku og tómatsósa sett út á máltíðna og var þá lesið yfir orðið „sykurleðja“. Síðan stöðvaðist myndskeiðið og spólað var til baka. Síðan var sýnd mynd af Felix tómatsósu og lesið yfir orðin „Nei, tómatsósa á að vera troðfull af tómötum, eins og Felix. Tomato, tomato.“

Neytendastofa taldi augljóst að í auglýsingunum væri vísað til annarra tómatsósa á markaði og þeim lýst með orðinu „sykurleðja“ á meðan Felix tómatsósa væri sögð „troðfull af tómötum.“ Neytendastofa taldi að með fullyrðingu um að tómatsósa keppinautar væri „sykurleðja“ væri kastað rýrð á vöru keppinautar og að um villandi samanburð væri að ræða.

Ennfremur taldi Neytendastofa að auglýsingarnar væru villandi, líklegar til að raska verulega fjárhagslegri hegðun neytenda, hafa áhrif á eftirspurn vara og að ekki hafi verið færðar sönnur fyrir umræddri fullyrðingu. Neytendastofa bannaði Ásbirni Ólafssyni ehf. að viðhafa ofangreinda viðskiptahætti og beindi þeim fyrirmælum til fyrirtækisins að fjarlægja auglýsingar af rás sinni á Youtube.com og öðrum samfélagsmiðlum þar sem auglýsingunum hafði verið komið á framfæri.

Ákvörðunina má lesa í heild sinni hér.

TIL BAKA