Fara yfir á efnisvæði

Airbnb verður að tilgreina fullt verð á gistingu

20.07.2018

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins ásamt neytendayfirvöldum í Evrópu hafa verið að skoða samningsskilmála Airbnb og verðframsetningu á vefnum út frá löggjöf um neytendavernd. Í kjölfar þess hefur Airbnb verið sent bréf þar sem óskað er eftir að gerðar verði breytingar bæði á skilmálum og verðframsetningu. Airbnb hefur frest til loka ágúst til að kynna tillögur sínar að úrbótum.

Þegar neytendur leita að gistimöguleikum á Airbnb þarf það verð sem birtist að fela í sér heildarverð gistingarinnar, sem felur í sér öll gjöld sem neytandanum er skylt að greiða. Ef ekki er mögulegt að reikna út heildarverð fyrirfram þá á að veita neytandanum með skýrum hætti upplýsingar um að mögulega verði krafist auka kostnaðar. Mikilvægt er fyrir neytendur að fá upplýsingar um heildarverð gistingar strax á fyrsta stigi svo þeir geti auðveldlega gert samanburð á verði.

Airbnb hefur einnig verið beðið um að breyta fjölda samningsskilmála sem eru taldir brjóta í bága við löggjöf um neytendavernd auk þess sem þeir eiga að vera skrifaðir á skýru og skiljanlegu máli.

Fréttatilkynningu Evrópusambandsins má sjá hér.

TIL BAKA