Fara yfir á efnisvæði

Litrík úlpa er ekki nóg

11.09.2019

Neytendastofa hvetur fólk til að huga að endurskinsmerkjum nú þegar dagurinn fer að styttast og skólarnir að byrja. Að ýmsu þarf að huga þegar valin eru endurskinsmerki því þetta er ein af þeim vörum sem ekki er hægt að meta hvort sé í lagi með því einu að horfa á hana. Vegna þess hve erfitt er fyrir neytendur að kanna gæði endurskinsmerkja, hvílir rík skylda á framleiðendum, innflytjendum, dreifingaraðilum og söluaðilum merkjanna að sjá til þess að merkin séu örugg.

Því hvetur Neytendastofa fólk að skoða vel upplýsingar sem gefnar eru á merkinu, umbúðum eða upplýsingablaði sem þeim fylgir. Það er mjög áríðandi að allar tilskildar merkingar og leiðbeiningar um notkun komi greinilega fram. Á merkingunum sést hvort endurskinsmerkið hafi verið prófað og virki eins og það á að virka. Endurskinsmerki sem standast kröfur verða að vera CE-merktar og með númerinu EN 13356 eða ÍST EN 13356. Slík merking táknar að framleiðandinn hafi látið prófa vöruna og staðfest er að hún sé í lagi.

Sömu reglur gilda um merkingar og leiðbeiningar fyrir öll endurskinsmerki hvernig sem þau líta út, svo sem endurskinsborða, hangandi endurskinsmerki, skokkbönd, hárskraut, límmerki, saumborða og límborða.

Endurskinsmerki sem uppfylla ekki kröfur um endurskin veita falskt öryggi og getur skapað hættu í umferðinni þar sem neytandinn telur sig vera með endurskinsmerki sem ökumenn ættu að sjá. Viðurkennd endurskinsmerki sýna einstakling sem mætir bíl með lágum ljósum í 125 metra fjarlægð en noti hann merki sem ekki er viðurkennt þá sést hann ekki fyrr en í 30 metra fjarlægð.

Ábendingum vegna endurskinsmerkja sem grunur er um að uppfylli ekki kröfur má koma til Neytendastofu í gegnum mínar síður á heimasíðunni: www. neytendastofa.is.


TIL BAKA