Fara yfir á efnisvæði

15 ára afmæli Neytendastofu

01.07.2020

Fréttamynd

Í dag 1. júlí fagnar Neytendastofa 15 ára afmæli sínu. Á þessum tímamótum hefur Neytendastofa opnað nýja gátt þar sem neytendur geta athugað á einfaldan hátt annað hvort með bílnúmeri eða vin-númeri bílsins hvort að í gildi sé öryggisinnköllun fyrir viðeigandi bifreið.

Frá og með deginum í dag hefur Þórunn Anna Árnadóttir verið sett í embætti forstjóra Neytendastofu í stað Tryggva Axelssonar sem hefur lokið störfum. Tryggvi hefur leitt Neytendastofu frá stofnun hennar. Stofnun Neytendastofu markaði þáttaskil í neytendavernd á Íslandi. Hlutverk stofnunarinnar er víðtækt en í stuttu máli þá sér stofnunin um að réttindi neytenda séu þekkt og virt, mælingar séu réttar, mælitæki á Íslandi séu löggilt og vörur á markaði hættulausar fyrir líf og heilsu neytenda og umhverfis.

Á hverjum einasta degi án þess að fólk sé endilega meðvitað um það hefur Neytendastofa áhrif á nærumhverfi fólks. Stofnunin hefur til dæmis eftirlit með mælingu á heimilisnotkun á heitu vatni og rafmagni, eldsneytisdælum, öryggisinnköllunum á bifreiðum, leikföngum, barnavörum, gulli, rafrettum, vigtun á matvælum, sjávarafla og öllu sem vigtað er við viðskipti. Fasteignalánum, neytendalánum, pakkaferðum, markaðssetningu, verðupplýsingum, rafrænum undirskriftum og andlitsgrímum fyrir neytendur.

Hér er bara um brot á þeim fjölmörgu verkefnum sem stofnunin hefur á sinni könnu.

Neytendastofa vill á þessum tímamótum þakka þeim fjölmörgu fyrirtækjum, stofnunum og félagasamstökum sem hún hefur haft samskipti við og sérstaklega áhugavert hvað neytendur hafa verið virkir í að nýta sér þjónustu okkar og koma með ábendingar en 10.890 erindi bárust í fyrra.

Takk fyrir okkur.


TIL BAKA