Fara yfir á efnisvæði

Tímabundið sölubann á vörur unnar úr eðalmálmum

11.11.2013

Neytendastofa hefur lagt tímabundið sölubann á vörur merktar Pan og Þorgrímur í Úra- og skargripaversluninni Heide, í Glæsibæ. 

Starfsmenn Neytendastofu fóru í skartgripaverslanir á höfuðborgarsvæðinu til þess að kanna hvort vörur unnar úr eðalmálmum væru með lögbundna ábyrgðastimpla. Stimplarnir sem um ræðir eru nafnastimpill og hreinleikastimpill svo að neytendur geti fengið staðfestingu á gæðum vörunnar. Niðurstöður þeirrar skoðunar leiddu m.a. í ljós að tveir gullhringir í Úra- og skargripaversluninni Heide, í Glæsibæ, uppfylltu ekki lögbundnar kröfur. Annars vegar var um að ræða gullhring með stimplinum Þorgrímur en hann var hvorki með hreinleikastimpil né skráðan nafnastimpil og hins vegar gullhring með stimplinum Pan en ekki var sýnt fram á að Pan væri samþykktur nafnastimpill. Af þessu leiðir að ekki er hægt að sýna fram á uppruna þessara vara, þ.m.t. ábyrgðaraðila þeirra. Þá er auk þessa ekki hægt að ábyrgjast hversu mikið magn eðalmálma er í vörunni. Lagði Neytendastofa því tímabundið sölubann á ofangreinda hringa og allar aðrar vörur unnar úr eðalmálmum sem bera þessa sömu stimpla. Hið tímabundna sölubann mun vara í fjórar vikur nema gripið verði til viðeigandi úrbóta innan þess tíma.

Nafnastimpill auðkennir framleiðanda, seljanda eða innflytjanda vöru þannig að hægt sé að rekja uppruna vörunnar. Hann þarf að vera samþykktur og skráður hjá Neytendastofu.  Listinn yfir skráða íslenska nafnastimpla og eigendur þeirra er hægt að skoða á heimasíðu Neytendastofu. Hreinleikastimpill segir til um þann hreinleika sem seljendur lofa við sölu á vörunni. En það er  þriggja tölustafa stimpill sem sýnir hversu mikið magn af hreinu gulli, silfri, platínu eða palladíum er í viðkomandi vöru.  Sem dæmi ef að hreinleikastimpillinn er 585, þá inniheldur varan 58,5% af hreinu gulli.

 

TIL BAKA