Fara yfir á efnisvæði

Ákvörðun Neytendastofu felld úr gildi

13.11.2013

Áfrýjunarnefnd neytendamála hefur fellt úr gildi þá ákvörðun Neytendastofu að ekki sé ástæða til aðgerða í tilefni auglýsinga Olíuverzlunar Íslands hf. (Olís) um að fyrirtækið styrki verkefnið Opinn skógur.

Neytendastofu barst kvörtun frá Skeljungi um að Olís auglýsti að fyrirtækið styrkti verkefni Skógræktarfélags Íslands „Opinn skógur“. Að mati Skeljungs hefði samstarfsverkefni Olís og Skógræktarfélagsins lokið er Skeljungur og Skógræktarfélagið gerðu með sér samning um það verkefni í maí 2011. Olís hafði gefið fjármuni til verkefnisins í mörg ár áður en að framangreindur samningur Skeljungs og Skógræktarfélagsins hafði verið gerður og auk þess greitt framlag í verkefnið í júlí 2011, eftir samningsgerðina. Taldi Neytendastofa að samvinna Olís og Skógræktarinnar væri þess eðlis að til þess að hún verði aflögð verði að gera það með formlegum hætti. Því þótti ekki ástæða til aðgerða af hálfu stofnunarinnar.

Í úrskurði áfrýjunarnefndar kemur fram að telja verði óumdeilt að ekki hafi komið til frekari greiðslna, en framangreind greiðsla í júlí 2011, af hálfu fyrirtækisins vegna umrædds verkefnis, né muni koma til frekari slíkra greiðslna á gildistíma núverandi samnings milli Skógræktarfélagsins og Skeljungs. Jafnvel þótt miðað sé við að greiðslan hafi verið vegna verkefnisins er ljóst að það gerir núverandi notkun fullyrðingarinnar „Olís eflir opinn skóg“ ekki rétta. Í því sambandi athugast að fullyrðingin er sett fram í nútíð og gefur skýrlega til kynna að Olíuverzlun Íslands hf. sé enn að styrkja umrætt verkefni, þótt fyrir liggi að félagið hafi í öllu falli enga greiðslu innt af hendi til þess síðan um mitt ár 2011 og muni ekki inna frekari greiðslur af hendi til þess, enda hefur Skógræktarfélag Íslands skýrlega lýst því yfir að samstarfinu hafi verið slitið. Var ákvörðun Neytendastofu því felld úr gildi

Sjá úrskurð áfrýjunarnefndar neytendamála nr. 23/2012

TIL BAKA