Fara yfir á efnisvæði

Óverðmerktar vörur í bakaríum

06.11.2013

Neytendastofa gerði  könnun dagana  18. – 23. september sl. á ástandi verðmerkinga í 49 bakaríum á höfuðborgarsvæðinu.  Athugað var hvort verðmerkingar væru í lagi í borði, gos- og mjólkurkælum.

Hjá 16 bakaríum (32%) var verðmerkingum ábótavant og voru kælar sérstaklega ílla verðmerktir. Stofnunin gerði athugasemdir við Bakarameistarann Austurveri, Smáratorgi, Suðurveri, Glæsibæ og Húsgagnahöllinni, Okkar bakarí Iðnbúð, Fjarðarbakarí Búðakór og Borgarholtsbraut, Kornið Langarima, Lækjargötu og Hjallabrekku, Hús  Bakarans Drafnarfelli, Bæjarbakarí Bæjarhrauni, Kökuhornið Bæjarlind og Björnsbakarí Austurströnd og Hverafold bakarí.

Augljóst er að verðmerkingar í bakaríum eru langt frá því að vera viðunandi og þurfa fyrirtækin að fara vel yfir verðmerkingar og verklag í bakaríum sínum og bregðast fljótt við tilmælum Neytendastofu til að forðast sektir.

Við viljum hvetja neytendur til að halda áfram að senda inn ábendingar í gegnum heimasíðu Neytendastofu, www.neytendastofa.is.

TIL BAKA