Rafrænar undirskriftir

Með rafrænu skilríki er hægt að undirrita skjöl rafrænt. Rafræn undirskrift hefur sama gildi og hefðbundin undirskrift ef hún er fullgild.

Til þess að rafræn undirskrift teljist fullgild þarf hún að vera studd fullgildu vottorði og gerð með öruggum undirskriftarbúnaði. Jafnframt verður útgefandi að slíkum undirskriftum að uppfylla ítarleg skilyrði laganna um starfsemina og hafa tilkynnt starfsemi sína til Neytendastofu. Á Íslandi er einn tilkynntur útgefandi að fullgildum vottorðum þ.e. Auðkenni ehf.

Um rafrænar undirskriftir gilda lög nr. 28/2001 um rafrænar undirskriftir og nánari reglur um framkvæmd eftirlits Neytendastofu er að finna í reglugerð nr. 780/2011  um rafrænar undirskriftir. Framangreind lög og reglugerð eru innleiðing tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 1999/93/EB  um rafrænar undirskriftir.

Markmið tilskipunarinnar er að  samræma reglur á Evrópska efnahagssvæðinu um notkun rafrænna undirskrifta í ljósi aukinna viðskipta í rafrænu formi sem og samskipta almennings við stjórnvöld þar sem að krafist er undirritunar. Í lögunum er m.a. fjallað um réttaráhrif rafrænna undirskrifta, kröfur til vottorða, undirskriftarbúnaðs og vottunaraðila.

Neytendastofa hefur eftirlit með því að starfsemi vottunaraðila fullnægi öllum kröfum í lögum um rafrænar undirskriftir.

Vottorð sem gefin eru út á Íslandi eru einnig gjaldgeng og viðurkennd sem fullgild undirskrift í öðrum ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu ef þau uppfylla kröfur laganna.

Neytendastofa er í samstarfi við eftirlitsaðila með rafrænum undirskriftum í öðrum löndum og er stofnaðili að FESA, the Forum of European Supervisory Authorities for Electronic Signatures - sjá  http://www.fesa.eu/index.html.

Ítarlegri upplýsingar um rafrænar undirskriftir má finna á vefnum skilriki.is.

Skýrsla vinnuhóps á vegum forsætisráðuneytisins um tilhögun rafrænna samskipta opinberra aðila við einstaklinga og lögaðila.

 

 

TIL BAKA