Fara yfir á efnisvæði

Tilkynningarskylda framleiðenda (BA)

Lög nr. 134/1995 um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu kveða skýrt á um ábyrgð framleiðenda og dreifingaraðila vöru. Þar kemur jafnframt fram að þeim ber að tilkynna bæði stjórnvöldum sem og neytendum til hvaða ráðstafana nauðsynlegt er að grípa til að koma í veg fyrir slys af völdum vöru.

Ef framleiðendur og dreifingaraðilar vita eða hafa mátt vita að vara sem þeir hafa markaðssett stofni neytendum í hættu skulu þeir tafarlaust tilkynna eftirlitsstjórnvöldum um það. Þetta þýðir að ef framleiðandi verður var við að vara hans sé gölluð eða jafnvel hættuleg neytendum þá ber honum að hafa samband við viðkomandi eftirlitsstjórnvald og tilkynna um slíkt. Þetta felur einnig í sér að framleiðandi skal upplýsa um þær aðgerðir sem hann hyggst grípa til þess að koma í veg fyrir að neytendum sé stofnað í hættu. Stjórnvöld skulu þá meta hvort þær séu fullnægjandi eða hvort nauðsynlegt sé að grípa til frekari aðgerða.

Þegar framleiðandi eða dreifingaraðili þarf að tilkynna um hættulega vöru til Neytendastofu, eða annars stjórnvalds á EES-svæðinu á að senda tilkynninguna í  gegnum Business Application kerfið (BA). Þegar tilkynnt er um hættulega vöru í kerfið tilgreinir fyrirtæki m.a. eiginleika vörunnar, hver hættan er og þær aðgerðir sem fyrirtækið hefur gripið til. Markaðseftirlitsstjórnvöld í viðkomandi löndum móttaka tilkynninguna og geta unnið með hana í kerfinu. Öllum tilkynningum sem berast í kerfið er síðan safnað í gagnagrunn sem er aðgengilegur stjórnvöldum.

Til þess að auðvelda framleiðendum þetta gaf Evrópusambandið út leiðbeiningar fyrir fyrirtæki/framleiðendur um það hvernig meta skuli hættu af vöru (Risk assessment). Reglunum er ætlað að auðvelda og samræma hvað er lítil, miðlungs eða veruleg hætta og leiðbeina um viðeigandi aðgerðir til að koma í veg fyrir slys eða óhöpp af völdum vöru eða í tengslum við notkun vöru.

TIL BAKA