Fara yfir á efnisvæði

Kvörðun-löggilding

Skilgreining nokkurra hugtaka og munurinn á kvörðun og löggildingu. 

Kvörðun
Kvörðun er röð aðgerða sem ákvarða sambandið á milli gilda stærða sem mælitæki sýnir og samsvarandi gilda sem mæligrunnur sýnir. Með öðrum orðum má segja að kvörðun sé samanburður á mælitæki og mæligrunni. Varast ber að rugla saman kvörðun og stillingu en hefðbundin kvörðun felur ekki í sér stillingu tækisins.

Mæligrunnur
Mæligrunnur er mælitæki, efnismát, mælibúnaður eða mælikerfi sem ætlað er að skilgreina, útbúa eða endurgera mælieiningu stærðar sem hafa á sem viðmiðun. Frægasta dæmið um mæligrunn er líklega kílógrammið hjá BIPM í París en allur annar massi er miðaður við massa þess.

Hvaða tæki á að kvarða?
Eiganda mælitækis ber að öllu jöfnu ekki skylda til að láta kvarða mælitækin sín. Faggiltum prófunar- og skoðunarstofum ber þó að láta kvarða mælitæki með reglubundnum hætti. Hins vegar er kvörðun aðferð til að staðfesta hve rétt og áreiðanlegt mælitæki er og ætti því að kvarða öll mælitæki sem einhver áhrif hafa á gæði framleiðslu

Tíðni kvarðana
Það er háð gerð mælitækis og notkun hvo oft á að kvarða. Þegar nýtt mælitæki er keypt ætti að kvarða það nokkuð ört í byrjun til að komast að mælifræðilegri hegðun þess. Þegar ljóst er hvernig mælitækið hegðar sér, t.d. hvernig niðurstaðan breytist með tímanum, má út frá þeim upplýsingum ákveða endurkvörðunartíðnina.

Kvörðun eða löggilding
Kvörðun er að öllu jöfnu frjáls en löggilding er bundin í landslögum. Ekki er hægt að komast hjá löggildingu mælitækis með því að láta kvarða það. Kvörðun er mat á mælifræðilegum eiginleikum tækis óháð utanaðkomandi kröfum en löggilding er athugun á hvort mælitæki sé innan skilgreindra marka. Samkvæmt því er ekki gerð athugasemd við það í kvörðun þó að mælitæki gefi skakkar niðurstöður en löggilding er í raun athugun á því hvort mælitæki sýni rétt. Kvörðun mælitækis fylgir kvörðunarvottorð með mæliniðurstöðum og óvissumati en eftir löggildingu er löggildingarmiði festur á tækið til að sýna að það mæli rétt og hann veitir mælitækjaeiganda leyfi til að nota tækið í löggildingarskyldum tilgangi.

TIL BAKA