Ákvörðun um skilmála og upplýsingagjöf vefsíðunnar flugbætur.is
Neytendastofa hefur tekið ákvörðun í máli Esju Legal, rekstraraðila vefsíðunnar flugbætur.is vegna upplýsingagjafar í skilmálum, viðskiptahátta félagsins og skort á upplýsingum um endanlegt verð.
Í svörum Esju Legal kom m.a. fram að staðfesting umsækjanda á að hann hafi lesið, skilið og samþykkt skilmála þess feli í sér ótvírætt samþykki hans á skilmálunum sem og sérstaka ósk um að þjónusta sé veitt áður en frestur til að falla frá samningi rennur út.
Þá brást félagið við athugasemdum Neytendastofu um verðupplýsingar og viðskiptahætti þess með því að gera breytingar á skilmálum og vefsíðu sinni.
Niðurstaða Neytendastofu var sú að Esja Legal hafi veitt neytendum rangar og villandi upplýsingar um lögbundin réttindi neytenda og ekki birt endanlegt verð þjónustu á forsíðu og rétt áður en neytandi gengur frá kaupum. Þá komst Neytendastofa að þeirri niðurstöðu að Esja Legal hafi brotið gegn góðum viðskiptaháttum með því að áskilja sér rétt til að tilkynna neytanda ekki sérstaklega um málshöfðun áður en mál er höfðað fyrir hans hönd.
Esju Legal hefur verið bannað að viðhafa ofangreinda viðskiptahætti og þeim fyrirmælum beint til félagsins að koma skilmálum á vefsíðunni flugbætur.is í viðeigandi horf og birta endanlegt verð á forsíðu félagsins og umsóknarferli notanda. Verði það ekki gert innan tveggja vikna skal félagið greiða dagsektir þar til farið hefur verið að ákvörðun stofnunarinnar.
Ákvörðunina má lesa í heild sinni hér.