Fara yfir á efnisvæði

Norræn neytendayfirvöld leggja áherslu á aukið samstarf fyrir sterkari neytendavernd.

17.09.2024

Dagana 26 til 28. ágúst sl. hittust fulltrúar neytendayfirvalda frá Danmörku, Færeyjum, Finnlandi, Grænlandi, Íslandi, Svíþjóð og Noregi, til að ræða sameiginlegar áskoranir neytenda og framfylgdarúrræði stofnananna.

Mikilvægi samstarfs yfir landamæri hefur aukist vegna eðlislíkra áskorana neytenda m.a. innan Norðurlandanna. Þá eru sífellt fleiri söluaðilar, vettvangar og sölumynstur að breiðast hratt út innan evrópska markaðarins. Til þess að bregðast við þessum nýju áskorunum sem m.a. eru tilkomnar með stafrænni þróun, stórum alþjóðlegum seljendum, netverslunum og markaðssetningu milli landa, verður hver og ein eftirlitsstofnun að nota fjármagn og krafta sína á skilvirkan hátt.

Norðurlöndin hafa sambærilega neytendaverndar löggjöf sem auðveldar samvinnu í einstökum málum og samræmda túlkun lagaákvæða. Yfirvöld í einu landi geta þ.a.l. byggt á vinnu sem hefur þegar verið unnin af yfirvöldum í öðru landi. Það samstarf sem er nú þegar hafið er því mikilvægt til að koma í veg fyrir og stöðva óréttmæta viðskiptahætti og ósanngjarna samningsskilmála innan Norðurlandanna.

Þetta þýðir líka að það er mikilvægt að neytendayfirvöld innan Norðurlandanna beiti sömu túlkun fyrir samskonar mál. Í þessu skyni gæti aukið samstarf milli norrænna neytendayfirvalda leitt til aukinnar lagalegrar vissu og fyrirsjáanleika fyrir seljendur vöru eða þjónustu. Seljendur gætu með þessu fyrirkomulagi beitt sömu viðskiptaháttum yfir landamæri í ríkari mæli en núna, í stað þess að þurfa að ráðfæra sig við yfirvöld í hverju landi.

Að mati stofnananna er norrænt samstarf því ekki einungis gott heldur nauðsynlegt.

TIL BAKA