Fara yfir á efnisvæði

Öryggishlið fyrir börn

20.06.2017

FréttamyndNeytendastofa hefur undanfarin ár lagt áherslu á að skoða vörur fyrir börn, eins og hjálma, leikföng, fatnað, ferðarúm og barnarimlarúm. Komið hefur í ljós að hérlendis hafa verið til sölu vörur sem ekki hafa verið í lagi og í sumum tilfellum veitt falskt öryggi fyrir forráðamenn barna og jafnvel verið hættuleg börnum.

Í samstarfi við önnur eftirlitsstjórnvöld ákvað Neytendastofa að skoða öryggishlið fyrir börn. Mikill fjöldi öryggishliða var skoðaður og af þeim voru valin 112 hlið sem voru send til prófunar á Spáni. Niðurstöðurnar voru ekki góðar en 77% af hliðunum voru ekki í lagi. Ýmsir gallar voru á hliðunum og sum hver beinlínis hættuleg börnum. Algengast athugasemdin, eða í 25% tilvika, var gerð vegna þess að bilið á milli rimla var of breytt. Oftast var breiddin þannig að búkur barna komst í gegn en ekki höfuð þess og það getur leitt til að það þrengir að hálsinum og börn geta kafnað. Einnig voru gerðar athugasemdir við að hlið væri lágt að auðvelt var fyrir barnið að klifra yfir það. Þó nokkuð var um að hlið gáfu eftir við högg til dæmis ef barn dytti á það eða ef börn stóðu við hliðið og hristu það eða toguðu þá gátu festingar gefið sig. Eftir þessar könnun á markaði voru mörg hlið tekin úr sölu og innkölluð í Evrópu meðal annars hafa nokkrar tegundir verið teknar af markaðnum á Íslandi

Það kom einnig á óvart að þegar lesnar voru leiðbeiningar kom þó nokkuð oft fram að öryggishliðin væru ekki ætluð til nota efst í stigum. Hliðin heita á ensku „stair gate“ því þykir það einkennilegt að það megi ekki nota þau til að koma í veg fyrir að börn fari niður stiga. Neytendur þurfa að hafa þetta í huga þegar keypt eru öryggishlið því það má ekki nota þau hvar sem er. Neytendastofa ásamt öðrum eftirlitsstjórnvöldum í Evrópu hefur sent frá sér athugasemdir til evrópsku staðlasamtakanna þar sem ljóst þykir að þetta geti verið villandi fyrir neytendur og krafan verði þannig í framtíðinni að öryggishlið séu hönnuð sem öryggishlið sem hægt sé að nota jafnt í stigaopnum sem og í hurðaopum.

Neytendastofa hvetur neytendur til að vera alveg viss um að hliðið sem verið er að kaupa sé hægt að nota við þær aðstæður sem þeim er ætlað.

Á hverju ári lenda um 1800 börn í slysum tengdum öryggishliðum inn á spítala í Bandaríkjunum en í Evrópu eru skráð færri slys. Ástæðan fyrir þessum muni getur verið sú að meiri kröfur eru gerðar til öryggishliða í Evrópu en það getur einnig verið þar sem slysaskráning er ekki góð í mörgum ríkjum Evrópu og ekki skráð hvað olli slysinu það er t.d. hvort að öryggishlið brást. Neytendastofa hefur til dæmis ekki enn fengið upplýsingar um slys frá Landsspítalanum en það myndi skipta okkur miklu máli til að geta gripið inn í ef um hættulega vöru væri að ræða.

Neytendastofa vill þakka þeim aðilum sem tóku þátt í þessari aðgerð og jafnfram þakkar þeim aðilum sem brugðust strax við og tóku vöruna af markaðnum á meðan verið var að skoða hana nánar.

TIL BAKA