Afturköllun og sölubann á snjallúrum ætluð börnum
Neytendastofa hefur bannað sölu- og afhendingu á krakka snjallúrunum ENOX Safe-Kid-One, sem voru seld og markaðssett í netverslun hjá Hópkaup. Stofnunin hefur einnig gert kröfu um að Hópkaup innkalli úrin frá kaupendum. Fyrirtækið skal einnig birta fréttatilkynningu um innköllunina.
ENOX Safe-Kid-One snjallúrin voru tekin til skoðunar hjá Neytendastofu með það að sjónarmiði að kanna hvort þau væru í samræmi við grunnkröfur laga nr. 134/1995, um öryggi vöru og opinbera markaðgæslu. Óskað var eftir gögnum um samræmi úranna við grunnkröfur, en fullnægjandi gögn bárust ekki við meðferð málsins.
Neytendastofa rannsakaði úrin í samstarfi við Persónuvernd og Póst- og fjarskiptastofnun. Í samstarfi við Syndis sérfræðiþjónustu í upplýsingaöryggi var framkvæmd skoðun og prófun á úrinu. Leiddi sú skoðun í ljós alvarlega öryggisgalla á snjallúrinu. Gögn í úrinu reyndust ekki dulkóðuð og auðvelt var fyrir aðila að brjótast inn í úrin (hakka sig inn) og sjá þar með allar upplýsingar sem úrið safnaði, t.a.m. upplýsingar um staðsetningu barnsins. Illgjarn aðili sem þannig á auðveldan hátt getur brotist inn úrið og tekið þar fulla stjórn, s.s. hlerað úrið eða framkvæmt annað sviksamlegt athæfi án þess að forráðamaður hafi nokkra vitneskju um það. Einnig væri auðvelt að breyta vistuðum símanúmerum og engir skilmálar voru til staðar um hvar gögnin voru vistuð, né hvernig eyða mætti gögnum. Í ljósi framangreindra atriða er öryggisstig og persónuvernd sem úrið veitti óviðunandi og notendur úranna hefðu engin úrræði til að takmarka áhættu sína af því að gögn þeirra væru aðgengileg eða verjast árás.
Ákvörðun Neytendastofa í heild má lesa hér.