Nýjar reglur um innflutning á barnabílstólum – mikilvæg tilkynning til almennings
Innanríkisráðuneytið hefur staðfest reglugerð um breytingu á reglugerð um notkun öryggis- og verndarbúnaðar í ökutækjum. Neytendastofa er í hinni nýju reglugerð falið markaðseftirlit með barnabílstólum. Frá 1. júlí 2013 má, samkvæmt ákvæðum reglugerðarinnar, aðeins markaðssetja, flytja inn og selja öryggisbúnað (barnabílstól eða bílpúða með baki) sem uppfyllir evrópskar kröfur í ökutækjum samkvæmt reglum ECE nr. 44. 04 með síðari breytingum. Markmið breytingarinnar er tvíþætt. Annars vegar að samræma reglugerðina betur við tilskipun 2003/20/EB og hins vegar að stuðla enn frekar að auknu öryggi barna í ökutækjum. Undanfarin ár hefur verið töluvert um að fólk hafi flutt inn öryggisbúnað fyrir börn frá Kanada og Bandaríkjunum en með þessari breytingu á reglugerðinni verður það óheimilt nema að búnaðurinn uppfylli ECE nr. 44. 04. Neytendur eru því framvegis hvattir til þess að gæta vel að því að barnabílstólar sem þeir kaupa til notkunar hér á landi uppfylli allar kröfur og beri réttar merkingar sem staðfesta samræmi við framangreindar kröfur.
Í stöðlum um framleiðslu og markaðssetningu á barnbílstólum er að finna ítarlegar reglur um merkingar og leiðbeiningar sem framleiðendum ber skylda til að uppfylla þegar þeir selja og markaðssetja vöruna.
Merking á barnabílstólum er venjulega uppbyggð á eftirfarandi hátt, sjá myndina með fréttinni:
1. Bílstóllinn uppfyllir evrópska öryggisstaðalinn ECE R 44-04. Athugið að síðustu tveir tölustafirnir verða að enda á 04 sem er nýjasta útgáfa staðalsins eða 03. (Ef síðustu tölur eru 01 eða 02 þá er stóllinn ekki löglegur til markaðssetningar frá árinu 2008).
2. Til eru 3 gerðir af samþykki fyrir barnabílstóla: „universal“ „semi-universal“ og „vehicle specific“. ‘Universal’ táknar að sætið er samþykkt til notkunar í öllum bifreiðum, en samt er rétt að athuga hvort að sætið passi vel í þína bifreið.
3. Hér kemur fram fyrir hvaða þyngd samþykkið tekur til. Hafi bókstafnum Y verið bætt við hér táknar það að bílstóllinn gangi við 5 punkta kerfi með viðeigandi ól.
4. Evrópska merkið um samþykki.
5. Þetta númer vísar til þess í hvaða landi samþykkið var gefið út. Til dæmis 1=Þýskaland 2=Frakkland 3=Ítalía 4= Holland o.s.frv.
6. Samþykktar númer. Fyrstu tveir tölustafirnir (04) tilgreinir hvaða útgáfa staðalsins hefur verið lögð til grundvallar við samþykki á barnabílstólnum, í þessu tilviki er það ECE R 44/04.
7. Einkvæmt númer sem sett hefur verið á þinn barnabílstól í þeim tilgangi að prófa stólinn og tryggja rekjanleika. (Athugið e.t.v. eru ekki allir stólar með þetta merki).
8. Upplýsingar um framleiðsluna: vika og ár, í þessu tilviki er sætið framleitt í 7. viku árið 2006.
9. Nafn framleiðanda og tilvísunarnúmer framleiðslunnar.
10. EAN merki
11. BAR merki.
12. Nafn framleiðanda.
Merkimiðar hjá framleiðendum barnabílstóla geta verið mismunandien á þeim eru þó alltaf allar grunnupplýsingar um vöruna sem skylt er að hafa samkvæmt gildandi reglum.
Neytendur eru hvattir til þess við kaup á slíkum vörum að gæta framvegis að því hvort að vörur sem þeir kaupa uppfylli allar kröfur laga og reglna. Unnt er að senda Neytendastofu ábendingar um vörur sem eru til sölu á markaði og almenningur telur að séu ekki í samræmi við hinar nýju reglur.
Reglugerðina má sjá hér.