Fara yfir á efnisvæði

Kaup í fjarsölu eða utan fastrar starfsstöðvar

Lög nr. 16/2016 um neytendasamninga tryggja neytendum víðtækan rétt til upplýsinga við kaup á vörum og þjónustu og rétt til þess að falla frá samningi sem er gerður í gegnum síma, á Netinu og við utan fastrar starfsstöðvar. Neytendastofa hefur eftirlit með viðskiptaháttum fyrirtækja samkvæmt lögunum. Lögin eru ófrávíkjanleg og geta neytendur þannig ekki afsalað sér réttindum sem þeim eru veitt samkvæmt lögunum.

Lög um neytendasamninga gera ríkar kröfur til upplýsinga sem neytendur eiga rétt á að fá frá seljanda áður en samningur er gerður. Meðal þeirra upplýsinga sem seljanda ber að veita eru upplýsingar um:

    • nafn og heimilisfang seljanda
    • helstu eiginleika vöru eða þjónustu
    • verð vöru eða þjónustu, þar með talin öll opinber gjöld, sem og afhendingarkostnað, ef það á við
    • fyrirkomulag á greiðslum, afhendingu og hvenær hún fer fram
    • rétt til að falla frá samningi og þær undanþágur sem gilda á þeim rétti
    • lögbundin úrræði neytenda vegna galla á söluhlut eða þjónustu
    • gildistími samnings eða, ef ótímabundinn eða endurnýjar sjálfkrafa, skilyrði fyrir uppsögn
    • hvort fyrir sé hendi kerfi fyrir kvartanir eða úrlaus deilumála utan dómstóla

Mjög mikilvægt er fyrir seljendur að uppfylla skilyrði laganna því vanræksla á því getur leitt til þess að neytandi sé ekki bundinn af samningi, s.s. að tímafrestir falli úr gildi, eða að hann þurfi ekki að greiða kostnað í tengslum við samninginn.

Þegar vara er keypt í gegnum síma eða á Netinu hefur neytandinn hvorki séð vöruna í reynd né heldur kynnst eiginleikum hennar áður en gengið er frá kaupum. Neytandinn hefur því alltaf rétt til að hætta við kaupin án nokkurra skýringa innan 14 daga frá því að samningur var gerður milli hans og seljanda eða frá því að neytandi fær vöru afhenta, ef sá dagur er síðar, og fá endurgreiðslu. Neytandanum ber að sjálfsögðu að skila vörunni óskemmdri til seljandans.

Rétturinn til þess að falla frá samningi er þó ekki undantekningalaus sem dæmi má nefna að neytandi hefur ekki rétt til þess að falla frá samningi:

    • Þegar varan rýrnar eða úreldist fljótt, t.d. eins og matur og drykkur.
    • Þegar innsigli hefur verið rofið á vörum sem ekki er hægt að skila af heilsu- eða hreinlætisástæðum eða vörum sem hafa að geyma hljóð- eða myndupptökur og    tölvuhugbúnað.
    • Þegar vara hefur verið sérsniðin að kröfum neytandans.
    • Þegar blað eða tímarit er sent í áskrift – Neytandi hefur þó alltaf rétt til þess að hætta við áskriftarsamninginn sjálfan.
    • Þegar seljandi hefur þegar veitt þjónustuna og neytandinn veitt fyrirfram samþykki um að hann missi rétt til að falla frá samningi.

Neytandi sem vill nýta sér rétt til að falla frá samningi skal tilkynna seljanda það með sannanlegum hætti og getur notað til þess staðlað eyðublað. Hafi neytandi notað þennan rétt sinn og fallið frá samningi þá á hann rétt á að fá endurgreitt án nokkurs kostnaðar þær greiðslur sem hann hefur þegar innt af hendi. Slík endurgreiðsla skal fara fram eins fljótt og kostur er og eigi síðar en eftir 14 daga.






TIL BAKA