Fara yfir á efnisvæði

Áður en samningur er gerður

Neytendur eiga rétt á að fá ýmsar upplýsingar áður en lánssamningur er gerður. Þessar upplýsingar á að veita á stöðluðu eyðublaði.
Ef lán er hærra en 2.000.000 kr. hjá einstaklingi eða 4.000.000 kr. hjá sambúðarfólki á til viðbótar við staðlaða eyðublaðið að veita neytendum upplýsingar um þróun höfuðstóls, greiðslubyrði, gengisþróun erlendra gjaldmiðla og þróun verðlags og vaxta. Ef það lán sem neytandinn hyggst taka er verðtryggt á hann á þessum sama tíma að fá afhenta niðurgreiðslutöflu (greiðsluáætlun) þar sem búið er að reikna lánið með tilliti til meðalársverðbólgu síðustu 10 ára.
Þessar upplýsingar á að afhenda neytandanum með eðlilegum fyrirvara svo hann geti kynnt sér þær og jafnvel borið saman við lánstilboð frá öðrum lánveitanda, áður en hann tekur ákvörðun um að taka lánið.
Ef um er að ræða yfirdráttarheimild sem þarf að greiða til baka innan þriggja mánaða eru ákvæði um upplýsingaskyldu ekki alveg jafn ströng. Þannig er t.d. heimilt að ganga frá slíkum samningi strax í síma með því að lýsa fyrir neytandanum helstu atriðum samningsins.

Mat á greiðslugetu
Áður en lánssamningur er gerður á lánveitandi að gera lánshæfismat eða greiðslumat á neytandanum. Lánshæfismat á að gera ef lánið er lægra en 2.000.000 kr. en greiðslumat ef lánið er hærra. Ef hjón eða sambúðafólk tekur lánið er miðað við 4.000.000 kr. Með þessari skyldu til að meta greiðslugetu er stuðlað að ábyrgri lánveitingu svo lánveitendur séu ekki að veita neytendum lán sem þeir geta augljóslega ekki greitt til baka. Neytandi er alltaf greiðslumetinn áður en honum er veitt erlent lán eða lán tengt erlendum gjaldmiðli, óháð því hver fjárhæð lánsins er.
Lánshæfismat er smærra í sniðum en greiðslumat og er því ætlað að meta líkurnar á því hvort neytandinn geti efnt lánssamninginn. Lánshæfismat er byggt á viðskiptasögu lánveitanda og neytanda. Greiðslumat er umfangsmeira og felur í sér útreikning á greiðslugetu neytandans. Þegar framkvæmt er greiðslumat þarf neytandinn að afhenda láveitanda ýmis gögn, s.s. staðfest afrit af síðasta skattframtali, staðfestingu á tekjum síðustu þriggja mánaða, staðfestingu á eftirstöðvum og greiðslubyrði allra skulda, þinglýsingarvottorð á fasteignum sem hann á, upplýsingar um húsaleigu þar sem það á við og önnur föst gjöld.
TIL BAKA