Fara yfir á efnisvæði

Ókeypis, frítt og gjöf

Í auglýsingum hefur tíðkast að notast við það orðalag að neytendur fái vöru eða þjónustu að gjöf kaupi þeir einhverja aðra vöru eða þjónustu. Á sama hátt er auglýst að neytendur fái vöru „ókeypis“ eða „fría“ þegar í reynd þarf að greiða fyrir aðra vöru til að fá fríu eða ókeypis vöruna.

Neytendastofa hefur talið slíkar auglýsingar í flestum tilvikum villandi, sér í lagi sé stuðst við slíkt orðalag þegar þörf er á að greiða fyrir aðra vöru eða þjónustu til þess að fá vöruna sem sögð er „frí“ eða „ókeypis“. Sú túlkun var m.a. byggð á því að á árinu 1993 kvað Hæstiréttur upp dóm í máli nr. 347/1990, Myndsýn hf. gegn samkeppnisráði. Myndsýn auglýsti að við filmuframköllun hjá fyrirtækinu fengist jafnframt ókeypis filma. Myndsýn var bönnuð notkun orðsins „ókeypis“ í þessu samhengi. Í dómi Hæstaréttar kemur fram að hlutur sé ókeypis ef hann sé látinn af hendi án endurgjalds eða skuldbindingar. Þegar orð eins og ókeypis sé notað yfir reglubundinn þátt í starfsemi fyrirtækis sé kostnaður við ókeypis vöruna aftur á móti innifalinn í því verði sem greitt sé fyrir aðra vöru. Með því að auglýsa að vara fáist ókeypis sé verið að gera lítið úr kostnaðarþætti í þeim tilgangi að hafa áhrif á eftirspurn eftir annarri vöru og slíkt sé villandi.

Í reglugerð nr. 160/2009 er listi yfir viðskiptahætti sem í öllum tilvikum teljast óréttmætir, svokallaður svarti listi. Í reglugerðinni er fjallað um slíkt orðalag og lagt algert bann við því að notað sé orð eins og ókeypis, frítt eða án endurgjalds ef neytandinn þarf að greiða eitthvað annað fyrir vöruna en kostnað við að svara boðum um vöruna eða sækja hana.

Þrátt fyrir framangreint gerir Neytendastofa ekki athugasemdir við það þegar seljendur bjóða neytendum bætt kjör við kaup yfir ákveðinni fjárhæð, séu allar forsendur þess skýrlega kynntar neytendum, hvort sem kjörin feli í sér kaupauka í formi vöru eða þjónustu eða afslátt af kaupverði svo dæmi séu tekin. Gæta þarf þó að því hvernig kynningu er háttað þannig að neytendum séu ekki veittar villandi eða rangar upplýsingar. Líta þarf til aðstæðna í hverju tilviki og hvort sú vara eða þjónusta sem kynnt er sé sannanlega frí þegar notast er við slíkt orðalag. Jafnframt eru ekki gerðar athugasemdir við það þegar auglýst er að ein vara fylgi annarri, að eitthvað sé innifalið þegar vara er keypt eða að við kaup fáist tiltekinn kaupauki.

Dæmi um ákvarðanir Neytendastofu þar sem reynt hefur á auglýsingar sem taka á framangreindu:

        • Ákvörðun nr. 12/2022 Auglýsing Nettó um fría heimsendingu

        • Ákvörðun nr. 16/2013 Ákvörðun um sekt vegna auglýsingar Lyfju um kaupauka
TIL BAKA