Fara yfir á efnisvæði

Jafnréttisáætlun

Neytendastofa leggur áherslu á að tryggja jafna stöðu kynjanna eins og kveðið er á um í lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008. Stuðlað er að góðri líðan starfsmanna í starfi og áhersla lögð á samræmingu fjölskyldulífs og starfs. Þá er lögð áhersla á mikilvægi þess að nýta til jafns þá auðlegð sem felst í menntun, reynslu og viðhorfum karla og kvenna. Jafnréttisáætlun Neytendastofu byggir á jafnræðisreglunni og miðar að því að allar manneskjur fái notið mannréttinda án tillits til uppruna, þjóðernis, litarháttar, trúarbragða, stjórnmálaskoðana, kynferðis, kynhneigðar, aldurs, efnahags, ætternis, fötlunar, heilsufars eða annarrar stöðu.

Líðan starfsmanna
Allir starfsmenn eiga rétt á því að komið sé fram við þá af virðingu og að þeir sæti ekki kynbundinni eða kynferðisleg áreitni, einelti eða ofbeldi í hvaða mynd sem er. Þá skulu starfsmenn ekki baktala hvern annan heldur koma fram af hreinskilni og koma skilaboðum um ágalla og þörf á úrbótum á framfæri við rétta aðila. Verði starfsmaður fyrir einhvers konar misrétti getur hann leitað til forstjóra/yfirstjórnar sem ber að leiðbeina honum í slíkum málum og veita nauðsynlega aðstoð. Þolandi skal engan skaða bera af ráðstöfunum sem gripið er til í því skyni.

Launajafnrétti
Laun skulu ákveðin á sama hátt fyrir konur og karla þannig að sömu viðmið skulu höfð til hliðsjónar við ákvörðun launa fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf. Sama á við þegar yfirvinna og hvers konar aðrar þóknanir eru ákvarðaðar, sem og önnur réttindi, svo sem lífeyrisgreiðslur, orlof og veikindaréttur.

Starfsþjálfun og endurmenntun
Leggja skal áherslu á að bæði kynin njóti sömu tækifæra til endurmenntunar og starfsþjálfunar og til að sækja námskeið sem leiða til aukinnar hæfni í starfi eða til undirbúnings fyrir önnur störf.

Auglýsingar um stöður
Starfsauglýsing á vegum Neytendastofu skal höfða bæði til kvenna og karla og gæta skal þess að hafa bæði kynin í huga við gerð slíkra auglýsinga.
 
Ráðningar og skipanir í embætti
Við veitingu á stöðu eða ráðningar í önnur störf á vegum Neytendastofu skal ætíð gæta jafnréttissjónarmiða til jafns við önnur mikilvæg sjónarmið. Þess skal gætt að sá umsækjandi sem metinn er hæfastur til þess að gegna starfi sé ráðinn, án tillits til kynferðis.

Samræming fjölskyldu- og atvinnulífs
Neytendastofa skal gera nauðsynlegar ráðstafanir til að gera konum og körlum kleift að samræma starfsskyldur sínar og skyldur gagnvart fjölskyldu. Ráðstafanir þær skulu m.a. miða að því að auka sveigjanleika í skipulagningu á vinnu og vinnutíma þannig að tekið sé tillit til þarfa stofnunarinnar og fjölskylduaðstæðna starfsmanna, þar með talið að þeim sé auðveldað að koma aftur til starfa eftir fæðingar- eða foreldraorlof eða leyfi úr vinnu vegna óviðráðanlegra og brýnna fjölskylduaðstæðna (force majeure).

Kynning
Jafnréttisáætlun Neytendastofu skal kynnt fyrir starfsmönnum stofnunarinnar. Nýjum starfsmönnum skal gerð grein fyrir efni áætlunarinnar.

Ábyrgð
Forstjóri ber ábyrgð á að jafnréttisáætlun Neytendastofu sé framfylgt og stjórnendur og starfsmenn bera sameiginlega ábyrgð á framgangi jafnréttismála í samræmi við áætlunina

TIL BAKA