Fara yfir á efnisvæði

Löggiltir rafverktakar í rafrænum samskiptum við Löggildingarstofu

05.12.2001

Með undirritun samstarfssamnings milli Löggildingarstofu og Form.is ehf. verður mögulegt fyrir rafverktaka að eiga í öruggum rafrænum samskiptum við Löggildingarstofu.
Samningurinn felur í sér að Löggildingarstofa getur m.a. hafið rafræna móttöku á lokatilkynningum frá löggiltum rafverktökum. Rafverktakarnir munu síðan fá svör og niðurstöður sinna erinda með rafrænum hætti og varðveitast öll þessi samskipti á öruggu heimasvæði hvers rafverktaka hjá Form.is. Þannig er ekki aðeins verið að tryggja rafræna afhendingu gagna á milli aðila heldur mun heimasvæði rafverktakans geta nýst sem hluti af hans eigin verkbók þar sem allar tilkynningar og samskipti vegna þeirra eru skráð og aðgengileg.
"Hingað til hafa þessi samskipti farið fram með skilum á þar til gerðum pappírseyðublöðum til rafveitu heima í héraði og hafa rafveiturnar síðan séð um að koma þessum erindum áleiðis til Löggildingarstofu. Með því að færa þessi samskipti yfir á rafrænt form er ekki aðeins verið að auka þjónustu og aðgengi rafverktaka vegna lögbundinna verkefna, heldur er einnig verið að auka skilvirkni og hagræði í þessu ferli þar sem ekki verður lengur þörf fyrir sendingu pappírsgagna milli Löggildingarstofu, rafveitu og rafverktaka, svo ekki sé talað um sparnað við innslátt, sendingarkostnað o.fl." Segir Gylfi Gautur Pétursson forstjóri Löggildingarstofu.
Rétt er þó að taka fram að rafverktakar munu áfram geta komið lokatilkynningum (LS,BL;105) til rafveitu eins og þeir hafa gert hingað til ef þeir kjósa svo.

TIL BAKA