Fara yfir á efnisvæði

Hátt í helmingur rafmagnsbruna á heimilum vegna eldavéla

11.11.2003

Komin er út skýrsla Löggildingarstofu um bruna og slys af völdum rafmagns árið 2002.

Eignatjón ársins áætlað um 600 milljónir kr

Í skýrslunni eru upplýsingar um bruna og slys sem rafmagnsöryggisdeild Löggildingarstofu tók þátt í að rannsaka árið 2002. Fram kemur í skýrslunni að stofnunin tók þátt í rannsókn 100 bruna af völdum rafmagns á árinu, en stofnunin áætlar að það svari til alls um 11% allra rafmagnsbruna ársins. Skráðum brunum fjölgar talsvert frá fyrri árum, en það telur stofnunin vera vegna fleiri tilkynninga til hennar en ekki fjölgun bruna. Ennfremur áætlar Löggildingarstofa að eignatjón vegna rafmagnsbruna árið 2002 hafi numið tæpum 600 milljónum króna. Engin dauðsföll urðu vegna rafmagnsbruna á árinu.

Nær fjórir af hverjum tíu rafmagnsbrunum á heimilum vegna eldavéla

Eldavélar eru það rafmagnstæki sem oftast kemur við sögu þegar bruni verður vegna rafmagnsbúnaðar og notkunar hans, eða í 25% allra tilvika. Allir rafmagnsbrunar vegna eldavéla urðu vegna rangrar notkunar. Önnur rafmagnstæki komu mun sjaldnar við sögu sem brunavaldar, en algengust þeirra voru á síðasta ári þvottavélar, sjónvörp, lausir lampar, ýmis rafhitunartæki og rafmagnstöflur, í þessari röð. Tæplega tveir þriðju rafmagnsbruna urðu í íbúðarhúsnæði. Ef skoðaðir eru sérstaklega brunar á heimilum sést enn skýrar hvað eldavélabrunar skera sig úr (38%). Þar á eftir koma þvottavélabrunar (17%) og sjónvarpsbrunar í þriðja sæti (10%).

Röng notkun og aðgæsluleysi

Á tímabilinu 1995 ? 2002 var röng notkun og aðgæsluleysi orsök nánast allra bruna vegna eldavéla og flestra bruna vegna lýsingar. Einnig er það algeng orsök bruna vegna annarra rafhitunartækja. Löggildingarstofa rannsakar einnig og skráir upplýsingar um slys af völdum rafmagns.

Ekkert banaslys á árinu

S.l. áratug urðu að meðaltali 0,3 banaslys vegna rafmagns ár hvert, en ekkert banaslys varð vegna rafmagns á síðasta ári. Flest slysanna urðu vegna mannlegra orsaka, eða 80%.

TIL BAKA