Fara yfir á efnisvæði

Röng meðferð kerta oftast orsök kertabruna

16.12.2004

Desember og janúar eru þeir mánuðir ársins sem brunar af völdum kerta eru hvað algengastir. Hér á eftir er að finna atriði sem gott er að hafa í huga við meðferð kerta.

Hver er aðalorsök kertabruna?
Því miður er það svo að flesta bruna af völdum kerta er hægt að rekja til kæruleysislegrar eða rangrar notkunar þeirra frekar en beint sé hægt að segja að um gallaða vöru hafi verið að ræða.  Með þessu er átt við að gleymt hefur að slökkva á kertum, þau hafa verið staðsett of nálægt auðbrennanlegu efni eða kviknað hefur í kertastjaka eða að kertaskreyting sé einfaldlega of nálægt kertaloganum. 

Brenna öll kerti eins?
Eina reglan við bruna kerta er sú að þau brenna afar mismunandi.  Dæmi eru um að kerti sem seld voru saman í pakka brunnu á afar ólíkan hátt.  
Markaðsgæsludeild Löggildingarstofu framkvæmdi á árinu 2004 prófun á brunaeiginleikum og var prófunin hluti af evrópskri kertaprófun.  Prófunin leiddi m.a. í ljós að kerti úr sama pakka brunnu afar ólíkt, leirpottur utan um kerti hitnaði svo mikið að ekki var unnt að koma við hann.  Megin niðurstaðan var hins vegar sú að merkingum kerta var afar ábótavant og má segja sömu sögu frá öðrum löndum sem tóku þátt í prófuninni.
Margir segja að notkunarleiðbeiningar séu frekar gagnslausar og að það sé hjákátlegt þar sem það er útlistað að klippa skuli af kveiknum, bil skuli haft á milli kerta, þau staðsett á stöðugu undirlagi og fjarri gardínum eða öðru auðbrennanlegu efni, þá er það staðreynd að mannlegi þátturinn orsakar í langflestum tilvikum kertabruna.  Þess vegna má aldrei vanmeta góðar notkunarleiðbeiningar og skýrar táknmyndir.

Kertaskreytingar skulu ætíð vera á óbrennanlegu og stöðugu undirlagi, t.d. úr málmi eða gleri og gæta þarf þess að kertaloginn nái undir engum kringumstæðum til skreytingarinnar.  Margir kjósa að föndra eigin skreytingar og hefur færst í vöxt að líma servíettur sem skraut utan á kerti.  Markaðsgæsludeild Löggildingarstofu mælir ekki með slíku skrauti sökum eldhættu.
Regla númer eitt er að koma kertinu þannig fyrir að það sé vel einangrað frá sjálfu skrautinu, svo sem borðum, greni og kúlum.  Til eru í verslunum aðventukransar úr járni sem eru hannaðir þannig að hægt er að setja sprittkerti í hólkana.  Kertið er þá algjörlega einangrað frá þeim eldsmati, sem aðventuskrautið kann að vera.  Fleiri leiðir eru mögulegar til að tryggja hættulaust ástand.  Nefna má staðsetningu og hæð kertanna.  Lág kerti eru mun líklegri til að ná til skreytingarinnar en hærri kerti.  Að sama skapi er mikilvægt að gæta að brennslutíma kertanna, sem eiga að vera á skreytingunni.  Mælt er með því að velja kerti, þar sem notkunarleiðbeiningar gefa upp lengd brennslutíma.  Í engum tilfellum er þó hægt að treysta því að kerti brenni nákvæmlega uppgefinn tíma.  Dæmi eru um að kerti úr sama pakka hafi brunnið mishratt.  Dragsúgur getur haft áhrif á brunatíma kerta og vert er að hafa í huga að kerti brenna mislangt niður.  Með því er átt við að kertaþráðurinn nær í sumum tegundum alveg í gegnum kertin á meðan kveikurinn í öðrum tegundum nær ekki alla leið niður sem aftur minnkar hættuna á að loginn nái til skreytingarinnar.Þegar kerti í aðventukransa er valið, ber að hafa í huga að húðuð kerti, t.d. gyllt og silfruð, geta í sumum tilfellum verið varasöm og einnig er mikilvægt að klippa ofan af kertaþræðinum áður en kveikt er á honum ef hann er of langur.  Kveikurinn á ekki að vera lengri en 1-2 cm.  Á markaðnum eru fáanleg eldtefjandi efni til að úða yfir skreytingar svo minni hætta sé á eldsvoða ef kertalogi berst í skreytingu.  Rétt er að ítreka að eldtefjandi efni koma ekki í veg fyrir bruna og hið sama gildir um kertaslökkvara sem komið er fyrir á kertum.  Aldrei má treysta á að þeir slökkvi á kertum og varasamt er að nota kertaslökkvara með snúnum kertum eða kertum, sem brenna misjafnt niður.  

Útikertin fjarri trépöllum
Varasamt er að setja fleiri en eitt útikerti þétt saman og kveikja á þeim þannig.  Útikerti skal undantekningalaust standa á óbrennanlegu undirlagi og aldrei á tréplötu, trépalli eða á öðru auðbrennanlegu undirlagi.  Útikerti loga flest eingöngu á kveiknum, en þó eru til kerti, þar sem allt yfirborð vaxins logar.  Þá getur loginn náð allt að 50 cm hæð og slettist til í allar áttir.  Aldrei skal snerta logandi útikerti með berum höndum eða þegar nýlega hefur slokknað á því því þau eru mjög heit.  Eldur getur hæglega blossað upp ef vatn eða snjór slettist á vax kertisins.  Æskilegt er að koma kertunum þannig fyrir að þau sjáist vel og að ekki sé hætta á að börn eða fullorðnir rekist í þau.  Þeir, sem klæðast víðum fatnaði, svo sem flaksandi kápum eða frökkum, þurfa að gæta sérstakrar varúðar í nánd við slík kerti.

 

TIL BAKA