Fara yfir á efnisvæði

Hættuleg snuð á markaði

09.02.2005

Markaðsgæsluyfirvöld á Norðurlöndunum létu framkvæma prófun á fimmtán ólíkum tegundum snuða og er niðurstaða prófunarinnar m.a. sú að þrjár tegundir þeirra teljast vera hættulegar börnum. Snuðtegundirnar hafa nú verið teknar af markaði en gætu verið í notkun þar sem tvær þeirra hafa verið seldar hér á landi.

Löggildingarstofa varar sérstaklega við notkun snuða af tegundinni Pussycat Supersut Classic sem m.a. hefur verið til sölu í apótekum og ákveðin tegund af Baby Nova  snuði sem selt var í versluninni BabySam. Löggildingarstofu er ekki kunnugt um að snuð af tegundinni Stera (liten) sem einnig féll í prófuninni hafi verið selt hér á landi. - Sjá myndir af snuðunum hér neðar.

Hjá BabyNova og Stera snuðunum losnaði túttan frá snuðinu en hjá Pussycat snuðinu losnaði snuðhaldan frá snuðinu. Afar hættulegt er þegar sjálf túttan losnar frá snuði þar sem það getur valdið köfnun og því ætti aldrei að nota snuð í of langan tíma, einkanlega ef börnin eru komin með tennur.  Snuð hafa takmarkaðan endingartíma og ætti að skipta þeim út reglulega.  Foreldrar og forráðamenn barna ættu að temja sér þá venju að toga í túttu snuða fyrir notkun og athuga hvort þau eru orðin slitin.  Ef svo er þá skal hætta að nota snuðin og henda þeim.   
Það að snuðhaldan losni frá snuði telst einnig vera alvarlegur öryggisbrestur.  Í þessu tilfelli komst snuðhaldan ekki ofan í svokallaðan kokhólk en stærð hans samsvarar koki barna yngri en þriggja ára.  Engu að síður er köfnunarhættan fyrir hendi.  Vakin er athygli á því að um að ræða Pussycat snuð með ferköntuðu snuðhaldi en ekki hringlaga snuðhaldi. 

Þær 12 tegundir sem einnig voru prófaðar stóðust sjálfa prófunina.  Hins vegar voru gerðar athugasemdir skorti á merkingum og upplýsingum á umbúðum snuðanna  þar sem t.d. leiðbeiningar um rétta notkun og varúðarmerkingar skorti í sumum tilfellum.

Neytendur eru hvattir til þess að henda slíkum snuðum ef þau eru í notkun eða snúa sér til verslunarinnar BabySam, Skeifunni 8 (BabyNova)  eða Engey hf, Bíldshöfða 16 Reykjavík (Pussycat). 

   
     


 


TIL BAKA