Fara yfir á efnisvæði

Fréttatilkynning

25.09.2007

Stjórnvöld sem bera ábyrgð á eftirliti með réttindum neytenda á Norðurlöndum og umboðsmenn neytenda á Norðurlöndum og hafa nú sammælst um að auka samstarf sitt. Á næstu árum er að því stefnt að auka virkt eftirlit með vandamálum sem tengjast viðskiptum á milli landa og yfir landamæri ríkjanna.
Samstarfið milli stjórnvalda sem fara með neytendamál þ.e. umboðsmanna neytenda í Svíþjóð, Noregi, Danmörku og Finnlandi hófst formlega fyrir 15 árum, fyrst með þátttöku Samkeppnisstofnunar af Íslands hálfu en frá 1. júlí 2005 með þátttöku Neytendastofu og talsmanns neytenda með það að markmiði að geta gripið til aðgerða gagnvart vandamálum sem neytendur standa sameiginlega frammi fyrir á Norðurlöndum.
Þörf fyrir náið samstarf hefur aldrei verið meiri vegna sölu á þjónustu og starfsemi fyrirtækja yfir landamærin svo og sífellt aukin rafræn viðskipti og þýðingu þeirra fyrir neytendur.
Á fundi sem fram fór í Karlstad, Svíþjóð 11. -12. september 2007 var samþykkt sameiginleg aðgerðaráætlun um samstarf á sviði neytendamála og teknar ákvarðanir um að styrkja starf að neytendamálum m.a. gagnvart viðskiptum á Netinu. Fyrirhugað er að vinna að samnorrænu verkefni á því sviði þar sem að fleiri en eitt ríki taka þátt í verkefninu.
Auk þess er fyrirhugað á vettvangi þessa samstarfs að setja í forgang umhverfis – og siðferðisleg mál, rafræn samskipti við neytendur og fjármálaþjónustu.

Nánari upplýsingar veita:
Tryggvi Axelsson, forstjóri og Þórunn Anna Árnadóttir, sviðsstjóri, Neytendaréttarsviði Neytendastofu.
Reykjavík 24. september 2007

TIL BAKA