Fara yfir á efnisvæði

Yfir helmingur matvöruverslana á höfuðborgarsvæðinu með mikið ósamræmi milli hillu- og kassaverðs

23.11.2009

Dagana 3. – 13. nóvember sl. gerði Neytendastofa könnun á ástandi verðmerkinga hjá  matvöruverslunum  á höfuðborgarsvæðinu. Samkvæmt lögum ber verslunareigendum skylda að verðmerkja allar vörur. Verðmerking verður að vera sýnileg og ekki má fara á milli mála til hvaða vöru hún vísar. Farið var í 72 matvöruverslanir sem reknar eru af 10 verslunarkeðjum

Af þessum 72 verslunum var tæplega helmingur með verðmerkingar í góðu lagi. Samræmi milli hillu- og kassaverðs var  ábótavant hjá 37 verslunum.  Bæði var um að ræða að verð væri hærra og lægra á kassa miðað við hillumerkingar. Krónan, Reykjavíkurvegi var með áberandi slæmar verðmerkingar en tæplega helmingur af þeim vörum sem skoðaðar voru var rangt eða ekki verðmerktar.  Fjórar verslanir voru með algjört samræmi milli hillu- og kassaverðs, Þín verslun Seljabraut og svo þrjár verslanir 10-11, í Austurstræti, Barónsstíg og Eggertsgötu. 

Verð á vörum er mikilvægur þáttur í ákvörðun neytenda um að eiga viðskipti auk þess sem verð skiptir miklu máli við ákvörðun um það í hvaða verslun varan er keypt. Því er mjög mikilvægt að verslanir fylgi þeim lögum og reglum sem um verðmerkingar gilda og merki allar vörur með skýrum hætti.

Neytendastofa mun halda áfram verðmerkingaeftirliti sínu og gera athugun hjá fleiri fyrirtækjum.  Neytendur geta komið ábendingum á framfæri í gegnum rafræna Neytendastofu á vefslóðinni www.neytendastofa.is.

TIL BAKA