Fara yfir á efnisvæði

Framkvæmdastjórn ESB leggur fram tillögur til að auka neytendavernd og tiltrú almennings á fjármálaþjónustu

24.08.2010

Hlutverk framkvæmdastjórnar ESB er meðal annars að skapa öryggi í fjármálaþjónustu og vinna að aðgerðum sem eru til þess fallnar að koma í veg fyrir efnahagskreppu og endurvinna traust neytenda. Framkvæmdastjórnin hefur lagt fram tillögur að breytingum á löggjöf Evrópusambandsins sem miða að því að auka vernd innistæðueigenda og smárra fjárfesta. Framkvæmdastjórnin hefur auk þess óskað eftir umsögnum og tillögum með hvaða hætti hún geti aukið vernd vátryggingataka, þ.m.t að koma á fót sérstökum tryggingasjóði fyrir vátryggingartaka í öllum aðildarríkjum EES. Samkvæmt tillögum ESB er nú lagt til að innstæðueigendur munu fá við gjaldþrot viðskiptabanka eða sparisjóðs innstæður sínar greiddar út mun fyrr eða innan 7 daga, vernd innstæðueigenda er aukin um allt að 100 þúsund evrur og þeir eiga að fá betri upplýsingar um með hvaða hætti og undir hvaða kringumstæðum þeir njóta verndar. Fyrir fjárfesta sem nota þjónustu á sviði fjárfestinga, þá leggur framkvæmdastjórnin til að þeir fái mun hraðar bætur ef fjárfestingarsjóður bregst fjárfestum sínum vegna svika, mistaka eða óstjórnar við fjárfestingar sjóðsins. Verða lágmarksbætur hækkaðar úr 20 þúsund evrum í 50 þúsund evrur. Fjárfestar munu einnig fá betri upplýsingar um hvenær að tryggingasjóður bætir tjón og þeir fá betri vernd gegn misnotkun þegar að fjármunum er komið í vörslu þriðja aðila eins og gerðist í nýlega í s.n. Madoff-máli. Tillögur ESB eru að öllu leyti í samræmi við samþykktir G20 eða tuttugu stærstu iðnríkjanna í heimi sem ESB hefur skuldbundið sig til að framfylgja. Þessar tillögur hafa nú verið lagðar fram á Evrópuþinginu og á borð ráðherraráðs ESB til umfjöllunar og samþykktar.

Michel Barner sem er framkvæmdastjóri fyrir Innri markaðsmál og þjónustu sagði: „Samþykkt ESB á þessum löggjafarpakka markar þáttaskil í nýjustu viðleitni framkvæmdastjórnarinnar til að krefjast aukins gagnsæis og ábyrgðar af fjármálaþjónustunni í Evrópu sem getur komið í veg fyrir efnahagskreppur í framtíðinni og tryggir betur en áður stjórn fjármálakerfisins. Neytendur í Evrópu eiga það skilið. Það verður að sannfæra þá á ný  að sparifé þeirra, fjarfestingar og vátryggingar sem þeir fjárfesta í njóti verndar alveg óháð því hvar þeir eru búsettir í Evrópu. Til þess að þetta geti orðið að veruleika þá hvet ég Evrópuþingið og ráðherraráð ESB að samþykkja eins fljótt og verða má þessa nýju löggjöf”

Vernd á innstæðum þínum
Fjármálakreppan sem hefur nýlega gengið yfir hefur sýnt enn og aftur hversu viðkvæmir bankar eru gagnvart “áhlaupi” þ.e.a.s þegar að innstæðueigendur trúa því að innstæður þeirra eru ekki lengur öruggar og reyna allir á sama tíma að taka út allt sitt sparifé..Allt frá árinu 1994, hefur aðildarríkjum á EES svæðinu verið skylt samkvæmt tilskipun 94/19/EBE að koma á fót öryggisneti fyrir innstæðueigendur. Við lokun banka þá á innlendur tryggingasjóður að endurgreiða öllum innstæðueigendum í viðkomandi baka innstæðueign sína upp að tiltekinni hjámarksfjárhæð.
Við upphaf fjármálakreppunnar 2008 var ákveðið að leggja fram strax tillögu þannig að hámarks tryggingarfjárhæð var aukin í 100 þúsund evrur (í tveimur skrefum) og leggja alfarið niður þann möguleika að innstæðueigendur eigi ekki rétt á fullum bótum heldur skuli þeir bera sjálfir ákveðið hlutfall (prósentu) af tapinu, jafnvel þó að innstæður þeirra nemi lægri fjárhæð en hámarksmörk reglna mæla fyrir um. Einnig kom í ljós að bæta þurfti úr fleiri atriðum í reglum sem gilda um tryggingakerfin og af þeirri ástæðu ákvað framkvæmdastjórnin að leggja fram heildartillögu um breytingu á tilskipuninni frá 1994 og tryggja þannig að  lærdómur sem draga má af fjármálakreppunni skili sér inn í löggjöfina.

Helstu atriði í tillögunni eru eftirfarandi:
• Hærri lágmarkstrygging: fyrir árslok ber að hækka lágmarkstryggingu í 100 þúsund evrur. Þetta þýðir að í raun muni 95% allra sparifjáreigenda innan ESB (og EES) fá allt sparifé sitt endurgreitt verði viðskiptabanki þeirra eða sparisjóður gjaldþrota. Tryggingin tekur nú til allra smárra, meðalstórra og stórra fyrirtækja og einnig til allra mynta sem notaðar eru. Innstæður fjármálastofnana, opinberra stjórnvalda og skipulagðra fjárfestingarsjóða og skuldabréf njóta þó ekki verndar.
• Hraðari útgreiðslur: innstæðueigendur eiga rétt á útgreiðslu tryggingar innan 7 daga. Þetta mun verða mikil bót því eins og staðan er í dag þá verða innstæðueigendur oft á tíðum að bíða vikum eða jafnvel mánuðum saman eftir því að fá fjármuni sína til baka. Til þess að unnt verði að hafa svo stuttan frest til útgreiðslu þá verða stjórnendur innstæðutryggingasjóða að fá upplýsingar mjög snemma frá fjármálaeftirlitinu um greiðsluerfiðleika þeirra. Bönkum verður gert skylt að geta þess í bókhaldi sínu hvort að innstæður hjá þeim njóti fullrar verndar eða ekki.
• Minna umstang: til dæmis ef þú ert búsettur í Portúgal og átt innstæðu í viðskiptabanka eða sparisjóði í banka sem verður gjaldþrota og hefur höfuðstöðvar sínar í Svíþjóð, þá mun innstæðusjóðurinn í Portúgal endurgreiða þér að eigin frumkvæði og sjá um öll samskipti við þig. Sænski tryggingasjóðurinn mun síðar svo endurgreiða fjármunina til innstæðutryggingasjóðsins í Portúgal. Þetta mun verða mikil framför frá núverandi ástandi þar sem að öll samskipti neytenda og innstæðueigenda verða að vera við tryggingasjóð í því landi sem að bankinn hefur höfuðstöðvar sínar. Þessi nýja aðferð mun þýða mun minna skrifræði og umstang og hraða endurgreiðslum til sparifjáreigendanna.
• Betri upplýsingar: reikningseigendur verða betur upplýstir um fjárhæð tryggingar og hvernig þeirra innstæðutryggingarsjóður starfar með nýrri og staðlaðri aðferð við upplýsingagjöf á reikningsyfirlitum þeirra.
• Ábyrg fjármögnun til lengri tíma: margir hafa lýst yfir áhyggjum yfir því að starfandi innstæðusjóðir séu ekki nægilega vel fjármagnaðir. Samkvæmt tillögu ESB þá verður fjármögnun þeirra betur tryggð með því að nú verður fylgt eftir nýrri aðferð sem byggð er á fjórum þrepum

  1. Fjármögnun verður byggð á fyrirfram gerðri spá um fjárþörf sem þarf til að mynda traustan sjóð;
  2. ef nauðsyn krefur, þá mun verða bætt við sjóðina eftir að skylda til útgreiðslu hefur myndast með sérstökum viðbótarframlögum;
  3. reynist þetta ekki fullnægjandi, þá munu sjóðir geta tekið lán innan tiltekinna marka frá öðrum innstæðutryggingasjóðum (“gagnkvæmar lánveitingar”);
  4.  þá er gert ráð fyrir fjármögnun með öðrum hætti ef neyðarástand skapast. Framlög og fjármögnun verður hér eftir sem hingað til á ábyrgð bankanna sjálfra

Neytendur í Evrópu munu því ekki aðeins njóta betri verndar, heldur munu þeir geta valið sér bestu innlánsreikninga til ávöxtunar á sparifé án þess að hafa áhyggjur af því hvort að mismunur sé í lágmarksvernd sem þeim er veitt. Tillagan er einnig hagstæð fyrir viðskiptabanka og sparisjóði þar sem að þeir munu geta boðið fram samkeppnishæfa innlánsreikninga án þess að þurfa að hafa áhyggjur af mismunandi reglum að þessu leyti. Þar að auki mun betri fjármögnun koma öllum skattgreiðendum til góða og minnka verulega líkur á að það þurfi að koma til ríkisaðstoðar.
Reiknað er með því að endurbætur á reglum geti tekið gildi þegar á árinu 2012 og 2013 í öllum aðildarríkjum ESB svo og í Noregi, á Íslandi og í Liecthenstein, eftir að þær hafa verið samþykktar inn í EES samninginn.
Sjá einnig nánar upplýsingar á ensku hér: MEMO/10/318

Vernd fjárfestinga
Allar götur frá árinu 1997 hefur tilskipun 97/9/EBE um innstæðutryggingar veitt fjárfestum vernd sem notfæra sér fjármálaþjónustu í Evrópu með því leggja fram bætur þegar að fjárfestingafyrirtæki geta ekki endurgreitt eða skilað aftur eignum til fjárfesta. Þetta getur til dæmis átt sér stað ef um er að ræða fjársvik, vanrækslu eða annarskonar vandamál við starfrækslu fyrirtækisins. Ekki er þó veitt vernd gegn eðlilegri áhættu sem fylgir fjárfestingum sem slíkum. Í dag eru starfrækt alls 39 sjóðir til tryggingar fyrir fjárfesta í 27 aðildarríkjum ESB.

Á undanförnum árum hefur framkvæmdastjórn ESB fengið fjöldann allan af kvörtunum um hvernig staðið er að framkvæmd tilskipunarinnar í sumum aðildarríkjum. Efnislega hefur verið kvartað yfir því að í mörgum tilvikum sé ekki til nægjanlegt fé til þess að geta endurgreitt kröfur á sjóðina eða að útgreiðslur hafi tekið mjög langan tíma.

Tillaga ESB miðar að því að auka skilvirkni í vernd fjárfesta til mikilla muna, tryggja að það sé jafnari samkeppni milli tegunda af fjárfestingum sem innstæðuverndin tekur til svo og að tryggð sé fullnægjandi fjármögnun og að fyrirkomulag á starfseminni sé þannig að fjárfestar fái þær bætur sem reglurnar mæla fyrir um.

Lykilþættir í tillögunni eru eftirfarandi:
• Aukin tryggingavernd: lágmarksbætur samkvæmt núverandi reglum eru 20 þúsund evrur. Í tillögu framkvæmdastjórnar ESB er gerð tillaga um að hækka þessa vernd í 50 þúsund evrur fyrir sérhvern fjárfesti.
• Hraðari útgreiðslur: samkvæmt gildandi löggjöf þá getur það tekið jafnvel nokkur ár fyrir fjárfesta að fá greiddar út bætur. Samkvæmt tillögu framkvæmdastjórnarinnar þá er lagt til að þessu verði breytt og lögð sú skylda á sjóðina að greiða út bætur eigi síðar en 9 mánuðum eftir að fjárfestingafyrirtæki hefur orðið ógjaldfært. Þessi tímamörk eru þó nauðsynleg til þess að hlutaðeigandi stjórnvöldum gefist ráðrúm til að rannsaka mál og taka ákvörðun varðandi stöðu einstakra fjárfesta og bótarétt þeirra. 
• Betri upplýsingar: fjárfestar munu fá skýrari og mun yfirgripsmeiri upplýsingar um hversu víðtæka vernd þeirra fjárfestingar hafa samkvæmt skilmálum sjóðsins. Til dæmis: fjárfestingaráhætta – ef fjárfesting fellur í verði vegna verðlækkunar á hlutabréfamarkaði eða vegna gjaldþrots útgefandans viðskiptabréfanna – þá fellur það ekki undir ákvæði tilskipunarinnar
• Ábyrg fjármögnun til lengri tíma: allt frá árinu 1997, hafa verið fjölmörg dæmi í aðildarríkjunum þar sem að tryggingasjóðir hafa ekki reynst vera nægilega fjármagnaðir og því ekki haft fullnægjandi fjármagn til þess að bæta fjárfestum tjón samkvæmt reglum sjóðanna. Í tillögu framkvæmdastjórnarinnar er gert ráð fyrir að komið verði á fót lágmarkssjóði sem verður að vera að fullu fjármagnaður þegar frá upphafi. Ef nauðsyn krefur, þá munu sjóðirnir geta tekið lán upp að vissum fjárhæðarmörkum ef ekki eru aðrar leiðir færar (“gagnkvæmar lánveitingar”). Fjárfestingarfyrirtækin bera sjálf ábyrgð á framlögum og fjármögnun sjóðanna.
• Víðtækari vernd: eins og reglum er nú háttað njóta fjárfestar ekki endilega verndar ef fjárfestingarfyrirtækið afhendir eignir fjárfestisins í hendur þriðja aðila til geymslu og þessi aðili verður gjaldþrota eða stendur ekki skil á þeim eignum sem hann hefur þannig tekið til varðveislu. Með sama hætti þá geta eigendur hlutdeildarskírteina í fjárfestingarfyrirtækjum orðið fyrir tjóni ef fyrirtækið sem varðveitir eignirnar verður gjaldþrota eða ógjaldfært eða undirverktaki þess. Fjárfestingarsvik sem áttu sér stað í Madoff-málinu 2008 eru gott dæmi um þetta. Framkvæmdastjórnin leggur nú til að hinar nýju reglur veiti einnig vernd í slíkum kringumstæðum.

Flestar umbætur á þessu sviði eiga að koma til framkvæmda fyrir árslok 2012 og munu þær ná til allra ríkja ESB svo og til Noregs, Íslands og Liechtensten eftir að þær hafa verið samþykktar inn í EES samninginn.
Sjá einnig nánar upplýsingar á ensku hér: MEMO/10/319

Endurbætur á vernd vátryggingartaka
Tryggingasjóðir fyrir vátryggingataka (e.IGS) veita neytendum vernd þegar um allt þrýtur og vátryggingafyrirtæki geta ekki uppfyllt samningsbundnar skyldur sínar, og veita þeir neytendum vernd gegn áhættunni af því að vátryggingafyrirtæki geti vegna gjaldþrots, ógjaldfærni eða rekstrarstöðvunar ekki veitt þá vernd sem skilmálar kveða á um.

Tryggingasjóðir fyrir vátryggingataka geta veitt vernd með því að þeir greiða neytendum bætur, eða þeir tryggja að vátryggingasamningurinn haldi áfram gildi sínu, til dæmis með því að auðvelda flutning á vátryggingum til annars starfandi vátryggingafélags eða með því að sjóðurinn sjálfur taki yfir útgefnar vátryggingar viðkomandi fyrirtækis. Öfugt við það sem hefur tíðkast vegna innlána í banka og útgáfu á skuldabréfum í fjárfestingarsjóðum þá hefur engin löggjöf verið í gildi hjá Evrópusambandinu þar sem skylt er að hafa tryggingarsjóði fyrir vátryggingataka. Eins og staðan er í dag þá starfrækja aðeins 12 aðildarríki í ESB einn eða fleiri tryggingarsjóð fyrir vátryggingataka sem ná til líftrygginga og eignatrygginga af ýmsu tagi. Mikill munur er þó á því hvernig þeir starfa og hvaða rétt til bóta neytendur geta haft, en einnig undir hvaða kringumstæðum sjóðirnir geta komið til aðstoðar neytendum auk þess er fjármögnun afar mismunandi.

Í hvítbók ESB sem einnig var samþykkt í júlí 2010 er að finna tillögur framkvæmdastjórnarinnar um nokkra valkosti sem eru fyrir hendi til að tryggja annars vegar sanngjarna og víðtæka vernd fyrir neytendur innan ESB og hins vegar að koma í veg fyrir að skattgreiðendum verði sendur reikningurinn í þeim tilvikum að vátryggingafélög verði gjaldþrota . Sérstaklega er bent á  þann möguleika að samþykkt verði tilskipun sem geri það að skyldu að í öllum aðildarríkjum verði til tryggingasjóðir fyrir vátryggingataka og ákveðið verði með lögum hver skuli verða lágmarksvernd þeirra komi til gjaldþrots vátryggingafélags.
Hvítbókin um tryggingasjóð fyrir vátryggingartaka hefur verið lögð fram til umsagnar og öllum sem hafa áhuga geta lagt fram umsögn og tillögur um málið en frestur til þess rennur út 30 nóvember 2010.
Sjá einnig nánar upplýsingar á ensku hér: Memo/10/320

Nánari upplýsingar og efni á ensku:

Tryggingarsjóðir innlánseigenda - Deposit Guarantee Schemes:
TryggIngasjóðir fyrir fjárfesta - Investor Compensation Schemes:
Tryggingasjóðir fyrir vátryggingartaka - Insurance Guarantee Schemes:
 
Slóðin sem þessi frétt er sótt til:
http://europa.eu/rapid/pressReleasesAction.do?reference=IP/10/918&format=HTML&aged=0&language=EN&guiLanguage=en

 

TIL BAKA