Verðskannar
Neytendastofa hefur gert könnun á verðskönnum í sumar í matvöruverslunum á höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum, Akranesi, Selfossi, Hveragerði Stokkseyri, Eyrarbakka, Þorlákshöfn, Akranesi og í Borgarnesi.
Matvöruverslanir verða að verðmerkja allar söluvörur með endanlegu verði og einingarverði. Þarf það að vera gert með viðfestum miða á vöruna sjálfa, hillumerki, verðlista eða skilti. Á hinn bóginn hafa verið gerðar nokkrar breytingar á kröfum til verðmerkinga á tilteknum vörum í tilefni af ákvörðun Samkeppniseftirlitsins um forverðmerkingar og kröfum markaðarins í kjölfar þeirra. Í því felst að fyrir tilteknar vörur hefur nú verið veitt heimild til að notast við verðskanna við verðmerkingar. Um er að ræða vörur sem koma forpakkaðar inn í verslanir og eru ekki í staðlaðri þyngd, t.d. ýmsar kjötvörur og ostar. Skoðað var því hversu margir skannar væru í hverri verslun og hvort staðsetning þeirra væri nægilega góð en gerðar eru kröfur um að verðskannar séu auðlesanlegir, aðgengilegir og staðsettir nálægt vöru. Í því felst að neytendur eigi jafn auðvelt með að nálgast verð vörunnar í verðskanna eins og ef hún væri verðmerkt t.d. með hillumerki.
Nokkrir vankantar á notkun verðskannanna komu í ljós. Voru þeir sums staðar ekki nógu áberandi, of fáir eða of hátt uppi. Nauðsynlegt er að verslanir, sem nota verðskanna, láti fjölda skanna taka mið af fjölda viðskiptavina og staðsetji þá á hentugum stöðum t.d. nálægt vörunum og ekki of hátt uppi þannig að allir eigi þess kost að nota skannann. Einnig kom fram að strikamerkin áttu það til að vera óregluleg í laginu með þeim afleiðinlegum að verðskannar náðu ekki að lesa strikamerkið.
Í kjölfar könnunarinnar sendi Neytendastofa bréf á viðkomandi matvöruverslanir þar sem greint var frá hvað mætti betur fara og hvað ætti að lagfæra við notkun verðskanna.
Ábendingum vegna ófullnægjandi verðskanna má koma til Neytendastofu í gegnum rafræna Neytendastofa á vefslóðinni www.rafraen.neytendastofa.is.