Fara yfir á efnisvæði

Öryggi barna

20.12.2011

Á jólum ræður gjafmildin ríkjum og mikið gjafaflóð ekki síst til barnanna. Oftar en ekki verða leikföng fyrir valinu en þá er mikilvægt að þau séu ekki bara skemmtileg heldur einnig að þau séu örugg og HÆTTULAUS fyrir börnin.  Ísland er aðili að Evrópska efnahagssvæðinu og en þar gilda ströngustu öryggisreglur í heimi fyrir sölu og markaðssetningu á leikföngum. Valið er því auðveldara en Neytendastofa vill þó benda á nokkur atriði sem hafa verður í huga við val á leikföngum enda þarf að huga að vel að því fyrir hvaða aldur leikfangið er og hvernig það sé notað. Hvað ættir þú að leita að sem foreldri til að vita hvort að leikfangið sé öruggt eða ekki?

Neytendastofa vill auk þess benda á að eftirfarandi atriði sem verður að hafa í huga þegar velja á leikföng:

Lestu alltaf á miðana sem eru á leikfanginu. Taktu eftir ráðleggingum er varða aldur og öryggisatriði. EKKI kaupa leikföng nema þau séu CE merkt, merkið á að vera á umbúðunum eða á leikfanginu sjálfu. CE merkið táknar að framleiðandinn ábyrgist að varan samræmist viðeigandi Evrópskum öryggiskröfum, sem eru meðal þeirra ströngustu í heiminum.

Veldu leikföng sem hæfa aldri barnsins, hæfni þess og þroskastigi. Leikföng sem ekki eru ætluð aldurshópi barnsins geta valdið hættu. Lesið vandlega og fylgið ráðleggingum um aldur, takið sérstaklega eftir merkinu, samanber mynd, sem þýðir að leikfangið hæfir ekki börnum yngri en 3ja ára. Mundu að þetta merki er viðvörun ekki  ráðlegging.

Gefið ekki barni yngri en 3ja ára leikföng sem eru með smáa hluti.  Börn hafa tilhneigingu til þess að setja upp í munninn leikföng en smáir hlutir geta staðið í börnum og valdið köfnun. Kannið hvort tuskudýr með augu, eyru, nef og aðra smáa hluti séu kirfilega festir.

Fylgdu vandlega leiðbeiningum um hvernig setja á saman og nota leikföng. Geymdu leiðbeiningarnar og upplýsingarnar sem fylgja leikfanginu á aðgengilegum stað.

Kauptu leikföng frá traustum smásala og traustri vefverslun.  Traustum smásölum er umhugað um vörunar sem þeir selja og hjá þeim er einnig  hægt að skila vöru. Óheiðarlegum kaupmönnum hættir til að vanrækja þætti er varða heilsu og öryggi og gætu einnig verið að selja fölsuð leikföng. Sérstaklega skal gæta að vörum sem eru til sölu í vefverslunum, ókeypis leikföngum og leikföngum sem keypt eru á nytjamörkuðum.

Leiðbeindu barninu í leik. Gættu að því  leikfangið hæfi aldri og getu barnsins og að það sé notað á réttan hátt. Ætið skal gæta þess að notaðir séu hjálmar og aðrar viðeigandi hlífar þegar það á við s.s. á skautum og hjólum.

Skoðaðu leikföngin reglulega til að kanna hvort þau hafa orðið fyrir hnjaski sem gæti leitt til þess að barnið gæti meitt sig á því eða valdið annarri hættu gagnvart heilsu þess eða öryggi. Fleygðu strax leikföngum sem eru brotin eða skemmd.

Tryggðu að barn yngri en 36 mánaða nái ekki til leikfanga sem eru ætluð eru eldri börnum, því þau geta innihaldið smáa hluti sem eru hættulegir ungum börnum

Fjarlægðu allar umbúðir, m.a. plastpoka, merkimiða og annað sem tilheyrir ekki leikfanginu, en geymið leiðbeiningarnar.  Tryggðu að yngri börn leiki sér ekki með plastumbúðir þar sem þær geta valdið hættu á köfnun. Passaðu einnig upp á að börn hafi ekki aðgang að rafhlöðum.

Kenndu barninu að taka til eftir sig til að koma í veg fyrir slys. Ekki skilja eftir leikföng í tröppum eða á stöðum þar sem umgengi er mikil.

Tilkynntu alltaf framleiðenda og/eða Neytendastofu ef þú verður var við öryggisvandkvæði leikfanga. Upplýsingar um hættulegar vörur sem teknar hafa verið af markaði má finna á heimasíðu Neytendastofu sjá hér.

Munið eftir þessum ráðum varðandi öryggi barnanna allt árið um kring, ekki bara jólin.

TIL BAKA