Fara yfir á efnisvæði

Útsölur og tilboð

06.01.2014

Fréttamynd

Útsölur og tilboð

Nú þegar útsölur eru að byrja vill Neytendastofa vekja athygli á nokkrum atriðum sem  verslanir verða að gæta að. Í lögum og reglum eru verslunum settar ákveðnar skorður með það hvenær megi auglýsa útsölu og hvernig það er gert. Tilgangurinn með reglunum er að koma í veg fyrir að neytendur séu blekktir til að halda að þeir séu að fá vörur eða þjónustu á betri kjörum en gengur og gerist ef svo er ekki raunin.

Verslanir þurfa að taka skýrt fram í auglýsingum og á sölustöðum hvaða vörur eru seldar á lækkuðu verði. Útsölu, tilboð og lækkað verð má einungis auglýsa þegar um raunverulega verðlækkun er að ræða og skýrt þarf að koma fram hvert sé fyrra verð vörunnar. Varan þarf að hafa verið seld á því verði sem er tilgreint sem fyrra verð áður en útsalan byrjaði þannig að það má ekki hækka verð í þeim eina tilgangi að geta lækkað það á útsölu.

Þegar vara hefur verið seld á lækkuðu verði í sex vikur þá er útsölu- eða tilboðsverðið orðið venjulegt verð vörunnar. Það er því ekki leyfilegt að hafa vörur á útsölu eða tilboði allan ársins hring því þá er ekki um að ræða betri kjör til neytenda en gengur og gerist.

Neytendastofa hefur eftirlit með því að verslanir fari eftir þeim reglum sem gilda um útsölur og fylgir eftir ábendingum frá neytendum telji þeir reglurnar brotnar. Brjóti verslanir gegn lögunum er stofnuninni heimilt að beita þær stjórnvaldsviðurlögum.  

TIL BAKA