Fara yfir á efnisvæði

Ákvörðun Neytendastofu staðfest

07.01.2014

Í júlí 2012 tók Neytendastofa ákvörðun um að ekki væri ástæða til aðgerða vegna auglýsinga Byko um allsherjar verðlækkun félagsins. Múrbúðin kærði ákvörðunina til áfrýjunarnefndar neytendamála sem nú hefur staðfest hana. Múrbúðin gerði einnig athugsemdir við málsmeðferð Neytendastofu og þá ákvörðun að veita Byko trúnað á hluta af gögnum málsins.

Um málsmeðferð Neytendastofu segir í niðurstöðum áfrýjunarnefndar að telja verði að hagsmunir Byko af því að farið sé leynt með upplýsingar úr viðskiptabókhaldi vegi mun þyngra en hagsmunir Múrbúðarinnar af því að fá gögnin afhent. Þá verði ekki séð að aðgangur Múrbúðarinnar að gögnunum hefði getað breytt nokkru um niðurstöðu málsins eða málatilbúnað félagsins. Þetta komi þó ekki í veg fyrir að opinberaðar verði almennar niðurstöður sem byggi á skoðun umræddra gagna og feli ekki í sér viðkvæm viðskiptaleyndarmál. Áfrýjunarnefndin féllst því ekki á að trúnaður skyldi koma í veg fyrri að veittar væru almennar upplýsingar um það hve stór hluti vörutegundanna hafi lækkaði í verði eða hver afsláttarprósentan hafi verið. Þá taldi áfrýjunarnefndin Neytendastofu ekki hafa brotið rannsóknarreglu stjórnsýslulaga við vinnslu málsins enda beri gögn málsins skýrlega með sér að kallað hafi verið eftir öllum þeim upplýsingum sem nauðsynlegar hafi verið.

Áfrýjunarnefndin féllst í úrskurði sínum á það mat Neytendastofu að auglýsingar Byko hafi verið í samræmi við aðgerðir félagsins enda verði ekki annað séð en að allsherjar verðlækkun hafi raunverulega átt sér stað. Ákvörðun Neytendastofu var því staðfest.

Úrskurð áfrýjunarnefndar í máli nr. 13/2012 má lesa í heild sinni hér

TIL BAKA