Fara yfir á efnisvæði

Ákvörðun Neytendastofu staðfest að hluta

12.02.2014

Neytendastofa fjallaði um auglýsingar Griffils og Eymundsson í ákvörðun sinni nr. 20/2013 og komst að þeirri niðurstöðu að ekki væri ástæða til aðgerða af hálfu stofnunarinnar. Ákvörðunin snéri að fullyrðingum Griffils um stærsta skiptibókamarkað landsins og langflesta titla á einum stað og fullyrðingunum „vinsælustu glósupennarnir“ og „vinsælast fyrir skólann“ í auglýsingabæklingi Eymundsson.

A4 kærði ákvörðunina til áfrýjunarnefndar neytendamála sem fjallaði um það í úrskurði sínum að ekki væri hægt að fallast á það mat Neytendastofu að fullyrðing Griffils „Lang, langflestir titlar á einum stað“ væri sett fram með þeim hætti að einungis væri vísað til titla á skiptibókamarkaði Griffils. Taldi áfrýjunarnefndin fullyrðinguna ekki tengjast skiptibókamarkaðnum einum og sér og því bæri Griffli að geta sýnt fram á að verslunin seldi einnig flesta titla af nýjum bókum. Þessi hluti ákvörðunarinnar var sendur til nýrrar meðferðar Neytendastofu. 

Um fullyrðingu Griffils „Stærsti skiptibókamarkaður landsins“ segir í úrskurðinum að til sönnunar fullyrðingarinnar hafi Griffill einungis lagt fram gögn um fjölda titla á skiptibókamarkaði Griffils og A4 en ekki annarra sem selji skiptibækur. Því taldi áfrýjuarnefndin fullyrðinguna ósannaða og brjóta gegn ákvæðum laga um óréttmæta viðskiptahætti. Sá hluti ákvörðunar Neytendastofu sem snéri að þessari fullyrðingu var því felldur úr gildi og bann lagt við birtingu fullyrðingarinnar.

Áfrýjunarnefnd féllst á mat Neytendastofu að fullyrðingar í auglýsingabæklingi Eymundsson „vinsælustu glósupennarnir“ og „vinsælast fyrir skólann“ hafi verið þannig fram settar að neytendum ætti að vera ljóst að vísað væri til vöruúrvals í verslun Eymundsson. Ákvörðunin var því staðfest að þessum hluta.

Úrskurð í máli nr. 6/2013 má lesa í heild sinni hér. 

TIL BAKA