Íslandsbanki braut gegn upplýsingaskyldu um neytendalán
Neytendastofa hefur tekið ákvörðun um að Íslandsbanki hafi brotið gegn ákvæðum eldri laga um neytendalán við upplýsingagjöf á verðtryggðu húsnæðisveðláni.
Neytendastofu barst kvörtun frá neytanda sem tók yfir verðtryggt lán árið 2006. Neytandinn taldi Íslandsbanka ekki hafa staðið við upplýsingaskyldu sína samkvæmt lögum með því að gera ekki ráð fyrir neinum verðbótum í útreikningi á árlegri hlutfallstölu kostnaðar (ÁHK), útreikningi á heildarlántökukostnaði og við gerð greiðsluáætlunar. Auk þess taldi neytandinn að bankanum hefði ekki verið heimilt að breyta vöxtum þar sem í fyrirsögn bréfsins stóð „Fastir vextir“. Í erindinu voru líka færð rök fyrir því að verðtrygging neytendalána teldist til óréttmætra viðskiptahátta.
Samkvæmt lögum um neytendalán, sem og þeim tilskipunum sem lögin innleiða, er rík upplýsingaskylda lögð á lánveitanda. Eldri lög um neytendalán tilgreindu ekki nákvæmlega hvernig taka ætti verðbætur inn í útreikning á árlegri hlutfallstölu kostnaðar en við upplýsingagjöf lánveitanda voru færð inn 0% undir þennan kostnaðarþátt við útreikning á ÁHK. Í ákvörðun Neytendastofu er það talið óheimilt og í andstöðu við lög um neytendalán svo og tilskipun um sama efni. Íslandsbanki hafi því brotið gegn ákvæðum laga um neytendalán með því að upplýsa ekki með fullnægjandi hætti um þennan kostnaðarlið við lántökuna.
Neytendastofa taldi vaxtaendurskoðunarákvæði samningsins fullnægjandi og því væri Íslandsbanka heimilt að að gera vaxtabreytingar þrátt fyrir að í titli veðskuldabréfsins hafi staðið „Fastir vextir“.
Í ákvörðuninni er fjallað um að Neytendastofa telur verðtryggingu neytendalána sem slíka ekki óréttmæta viðskiptahætti. Verðtrygging neytendalána hefur verið leyfð með lögum allt frá árinu 1979 og því er verðtygging lána til neytenda sem slík lögmæt hér á landi. Þó verður að líta til upplýsingagjafar og aðstæðna í hverju tilviki og meta hvort um óréttmæta viðskiptahætti sé að ræða.
Í ákvörðuninni er einnig gerð grein fyrir því að Neytendastofa hefur einungis heimildir til þess að taka ákvörðun um hvort brotið hafi verið gegn ákvæðum laganna á allsherjarréttarlegum grundvelli. Hvernig fara skuli með samninginn í kjölfar ákvörðunarinnar verða aðilar að leysa sín í milli með samkomulagi fyrir úrskurðanefnd í viðskiptum við fjármálafyrirtæki eða eftir atvikum að fela dómstólum að leysa úr slíkri kröfu.
Ákvörðunina má lesa í heild sinni hér.