Alþjóðleg fjármálalæsisvika 2014
Stofnun um fjármálalæsi fer fyrir hópi stofnana og fyrirtækja sem standa fyrir ýmsum viðburðum í annarri viku marsmánaðar til að fagna alþjóðlegri fjármálalæsisviku 2014. Þetta er í fyrsta sinn sem hátíðin er haldin á Íslandi en alls taka þátt yfir 100 lönd í öllum heimsálfum. Dagskrá vikunnar er fjölbreytt og skemmtileg.
Nýr fjármálalæsisleikur fyrir efstu bekki grunnskóla verður kynntur til sögunnar, leiðsögn um sýningu í Seðlabankanum og fjármálafyrirlestur Jóns Jónssonar er meðal þess sem börnum býðst á dagskrá fjármálalæsisvikunnar. Dagskráin fylgir hér fyrir neðan og er einnig aðgengileg á www.fe.is.
Hleypt verður af stokkunum nýjum fjármálalæsisleik fyrir unglinga. Leiknum, sem kallast Óskalistinn, er ætlað að auka áhuga nemenda á eigin fjármálum og gengur út á að fá þátttakendur til þess að hugsa til framtíðar og ráðstafa framtíðartekjum. Leikurinn er hannaður af nemendum í MPM námi í Háskólanum í Reykjavík og stendur öllum grunnskólum til boða að nýta sér leikinn í fjármálalæsiskennslu.
Alþjóðleg fjármálalæsisvika á Íslandi er hluti af alþjóðlegri vitundarvakningu sem ætlað er að vekja athygli á mikilvægi fjármálalæsismenntunar og stuðla að viðhorfsbreytingu þegar kemur að fjármálum. Hollenska góðgerðarhreyfingin Child and Youth Finance International stendur að átakinu á alþjóðavísu. Hreyfingin vinnur að eflingu fjármálalæsis og aðgengi barna og ungmenna að öruggri og barnvænni fjármálaþjónustu um heim allan. Hreyfingin nýtur stuðnings margra framámanna og stofnana á heimsvísu, þar á meðal aðalritara Sameinuðu þjóðanna, Ban-Ki Moon.
Í dag hefur innan við 1% allra barna í heiminum aðgang að fjármálalæsismenntun eða fjármálaþjónustu við sitt hæfi. Skortur á fjármálalæsi veldur því að ungt fólk lendir í vanda vegna skuldsetningar, sem hefur neikvæðar afleiðingar á þroska þess og velferð. Markmið fjármálalæsisvikunnar er að gera börnum og ungmennum grein fyrir mikilvægi fjárhagslegra réttinda sinna.
Að alþjóðlegri fjármálalæsisviku standa Arion banki, Fjármálaeftirlitið, Fjármálaráðuneytið, hópur nemenda í MPM námi í Háskólanum í Reykjavík, Meniga, NASDAQ OMX kauphöllin, Neytendastofa, Seðlabanki Íslands, Stofnun um fjármálalæsi, Umboðsmaður skuldara og Viðskiptaráð.
Dagskrá:
Mánudagur
9:30 Nemendur í 10. bekk Salaskóla hringja inn vikuna í Kauphöllinni
Þriðjudagur
14:00- 16:00. Leiðsögn um myntsafn Seðlabanka og Þjóðminjasafns, Kalkofnsvegi 1 (við Arnarhól). Myntsafnið er annars opið frá 13:30 til 15:30. Símanúmer Seðlabankans er 569 9600.
Miðvikudagur
Óskalistanum nýjum fjármálalæsisleik hleypt af stokkunum í Salaskóla
14:00- 16:00. Leiðsögn um myntsafn Seðlabanka og Þjóðminjasafns, Kalkofnsvegi 1 (við Arnarhól). Myntsafnið er annars opið frá 13:30 til 15:30. Símanúmer Seðlabankans er 569 9600.
19:00 Fyrirlestur Jóns Jónssonar í Arionbanka fyrir nemendur í 8.-10. bekk
Fimmtudagur
14:00- 16:00. Leiðsögn um myntsafn Seðlabanka og Þjóðminjasafns, Kalkofnsvegi 1 (við Arnarhól). Myntsafnið er annars opið frá 13:30 til 15:30. Símanúmer Seðlabankans er 569 9600.
15:00-17:00 Neytendastofa verður í Smáralind, dreifir bæklingum um neytendalán og svarar spurningum
Föstudagur
Óskalistinn, nýr fjármálalæsisleikur, leikinn í Lindaskóla
12:00-14:00 Neytendastofa verður í Kringlunni, dreifir bæklingum um neytendalán og svarar spurningum
Fjármálaráðuneyti fyrirlestrar í Háskólanum