Fara yfir á efnisvæði

Ekki alltaf sama verð á hillu og kassa

20.03.2014

Dagana 23. febrúar – 3. mars síðastliðinn kannaði Neytendastofa verðmerkingar í Grindavík, Garðinum, Sandgerði, Reykjanesbæ og Vogunum. Farið var í 19 fyrirtæki , matvöruverslanir, byggingavöruverslanir og bensínstöðvar. Könnunin leiddi í ljós að 36% verslana voru ekki með verðmerkingar í lagi og 31% verslana með ósamræmi á milli hillu- og kassaverðs. Bæði var um að ræða lægra verð og hærra verð á kassa. Mesti munur á vöru var um 400 kr en lægsti 1kr.

Neytendastofa skoðaði verðmerkingar hjá sjö matvöruverslunum þar sem einnig voru kannaðar 50 vörutegundir og borið saman hillu og kassaverð. Verðmerkingar voru í lagi hjá fimm verslunum. Athugasemdir voru gerðar við verðmerkingar hjá Nettó Krossmóa og Samkaup Strax Hringbraut, talsvert var af óverðmerktum vörum, einingarverð vantaði og einnig var eitthvað um ósamræmi milli hillu og kassaverðs.

Tvær byggingavöruverslanir voru skoðaðar. Teknar voru 25 vörutegundir og borið saman hillu- og kassaverð þeirra. Gerðar voru athugasemdir við Húsasmiðjuna Fitjum þar sem bæði fundust óverðmerktar vörur og ósamræmi í verði.

Stofnunin kannaði verðmerkingar hjá tíu bensínstöðum, einnig voru 10 vörur skoðaðar og athugað samræmið milli hillu- og kassaverðs. Hjá N1 Hafnargötu 86 vantaði verð á ýmsar vörur og var einnig ósamræmi á þrem vörum af tíu, hjá N1 Hafnargötu 15 voru vörur í kæli alveg óverðmerktar og var ósamræmi á þrem vörum, hjá Olís Vatnsnesvegi vantaði verð á ýmsar vörur og var ósamræmi á einni vöru, hjá Olís Fitjabakka var ekkert ósamræmi en þar vantaði verð á vörur í kæli og á sólgleraugnastand.

Neytendastofa hvetur neytendur til að vera vakandi um verð vöru þegar gengið er frá greiðslu, þar sem töluvert ósamræmi getur verið á hillu- og kassaverði.

TIL BAKA