Verðmerkingareftirlit á Suðurnesjum
Dagana 23. febrúar – 3. mars síðastliðinn kannaði Neytendastofa verðmerkingar á Suðurnesjum, farið var í Garðinn, Grindavík, Sandgerði, Reykjanesbæ og Vogana. Heimsótt voru 67 fyrirtæki, sérverslanir, bakarí, hársnyrtistofur, söfn, snyrtistofur, ritfangaverslanir, fiskbúðir, veitingahús og pósthús.
Farið var í þrjú bakarí og skoðað hvort verðmerkingar í kæli, borði og öðrum söluborðum/hillum væru í lagi. Verðmerkingar voru ófullnægjandi hjá Hérastubb Gerðavöllum og Valgeirsbakarí Hólagötu. Gerðar voru athugasemdir við kæli hjá Valgeirsbakarí en hjá Hérastubbi voru allar vörur í borði óverðmerktar og einnig vantaði verð á vörur í kæli.
Sex veitingahús voru könnuð. Athugað var hvort matseðill væri við inngang og hvort magnupplýsingar fylgdu drykkjum. Hjá Mamma Mia Hafnargötu, Thai keflavík Hafnargötu og Salthúsinu Stamphólsvegi vantaði matseðil við inngöngudyr.
Skoðaðar voru 12 hár- og snyrtistofur. Komu verðmerkingar almennt vel út en ellefu stofur voru með verðmerkingar á vöru og þjónustu í lagi. Gerðar voru athugasemdir við söluvörur hjá hárgreiðslustofunni Fimir fingur Hafnargötu þar sem allar vörur voru óverðmerktar.
Farið var í 34 sérvöruverslanir og athugað verðmerkingar inni í verslununum sjálfum og í sýningargluggum. Aðeins voru gerðar athugasemdir við eina verslun en það var verslunin Stapafell Hafnargötu þar sem vantaði verð á vörur í kæli og á póstkortastand.
Neytendastofa kannaði einnig verðmerkingar í tveim fiskbúðum, einni ritfangaverslun, fjórum apótekum, einu safni og fjórum pósthúsum þar sem ekki voru gerðar neinar athugasemdir við verðmerkingar.
Aðilum sem Neytendastofa telur ástæðu til að gera athugasemdir við vegna ástand verðmerkinga verður sent bréf frá stofnuninni og gefinn kostur á að koma verðmerkingum í viðunandi horf. Könnuninni verður svo fylgt eftir og ef þurfa þykir teknar ákvarðanir um hugsanleg viðurlög ef ekki hefur verið farið að fyrirmælum stofnunarinnar um að bæta úr verðmerkingum sínum.
Neytendastofa mun halda áfram verðmerkingaeftirliti sínu og gera athugun hjá fleiri fyrirtækjum. Neytendur geta komið ábendingum á framfæri í gegnum rafræna Neytendastofu.