Samevrópskt átak á sviði ferðaþjónustu
Neytendastofa tekur reglulega þátt í samræmdum skoðunum á vefsíðum sem selja neytendum vörur eða þjónustu á Evrópska efnahagssvæðinu. Þessar skoðanir eru gerðar til þess að kanna brot á neytendalöggjöf og koma málum í betra horf.
Sumarið 2013 voru athugaðar í heildina 552 vefsíður sem selja flugför og hótelgistingu. Á Íslandi voru skoðaðar 10 vefsíður: vefsíður Flugfélags Íslands, Flugfélagsins Ernis, Icelandair og Wow air og vefsíður Central hotels, Grand hótel, Hilton, Hótel Edda, Hótel Rangá og Icelandair hotel.
Niðurstöður skoðunarinnar voru þær að 382 eða 69% af vefsíðunum 552 voru ekki í lagi. Hér á landi voru gerðar athugasemdir við allar tíu vefsíðurnar sem skoðaðar voru.
Yfirvöld í hverju ríki höfðu samband við fyrirtækin sem stóðu að baki hinum brotlegu síðum. Þangað til nú hafa 173 vefsíður verið leiðréttar og vegna þessara kröftugu aðgerða virða 62% síðanna nú réttindi neytenda. Eftirstandandi 38% mega búast við frekari aðgerðum þar sem evrópsk yfirvöld halda áfram vinnu til að tryggja að réttindi neytenda séu virt að fullu. Hafa 52 síður lofað úrbótum eða leiðréttingum. Níu af vefsíðunum tíu sem Neytendastofa gerði athugasemdir við hafa gert viðeigandi breytingar á síðunum sínum. Stofnunin vinnur því enn að máli vegna vefsíðu Flugfélagsins Ernis.
Vefsíðurnar voru athugaðar til að kanna hvort auðvelt væri að finna upplýsingar um þjónustuna; hvort verð væri birt á fyrsta stigi bókunarferilsins og hvort valfrjáls viðbótargjöld væru fyrirfram valin; hvort síðurnar gáfu upp póstfang þar sem koma mætti á framfæri spurningum og kvörtunum; auk þess sem kannað var hvort síðurnar höfðu að geyma skilmála sem væru aðgengilegir fyrir kaup.
Helstu athugasemdirnar sem gerðar voru:
• Skortur á upplýsingum um þjónustuaðila sem skylda er að birta, þá sérstaklega netfang. 162 síður (30%) innihéldu ekki slíkar upplýsingar. Þær upplýsingar sem helst vantaði á íslensku síðurnar voru netfang, kennitala eða VSK-númer.
• Skýrar upplýsingar skorti um það hvernig ætti að leggja fram kvörtun. 157 síður (28%) gáfu ekki upp slíkar upplýsingar.
• Valkvæð viðbótargjöld, t.a.m. um farangursgjöld, tryggingagjöld og forgang um borð voru ekki sett fram þannig að kaupandi þjónustu gæti hakað við möguleikann hefði hann áhuga á honum. 133 síður (24%) buðu ekki upp á slíka möguleika.
• Heildarverð þjónustu var ekki skýrlega gefið upp þegar aðalþættir bókunar voru fyrst sýndir. Slíkar upplýsingar vantaði á 112 síður (20%).
Neytendastofa gerði athugasemdir við skilmála hjá níu vefsíðum, flestar voru vegna þess að ekki var hægt að vista eða prenta skilmála með auðveldum hætti.
Stjórnsýslu- eða dómsmál eru í gangi hjá yfirvöldum vegna þeirra 209 síðna sem enn hafa ekki lagfært þau atriði sem bent var á.
Átakið fór fram í júní 2013 í 27 aðildarríkjum Evrópusambandsins auk Noregs og Íslands. Var þetta sjöunda sameiginlega átakið frá árinu 2007. Aukin fjöldi Evrópubúa kaupir ferðaþjónustu á netinu en á árinu 2012 keyptu 32% evrópskra neytenda flugför eða hótelgistingu um netið. Ferðaþjónusta, túrismi og tengdir geirar skapa yfir 10% af vergri þjóðarframleiðslu innan Evrópusambandsins. Evrópubúar fóru í yfir einn milljarð ferða á árinu 2011 í því skyni að fara í frí, en þar af voru 80% ferðanna innan Evrópusambandsins.
Fréttatilkynningu Evrópusambandsins er hægt að nálgast í heild sinni hér