Fara yfir á efnisvæði

RAPEX – Tíu ár af bættu öryggi í Evrópu

25.04.2014

Í ár fagnar Rapex tíu ára sögu af velgengni þar sem öll aðildarríki EES hafa unnið saman að auknu öryggi neytenda í Evrópu. Tíu ára afmæli Rapex er vitnisburður um sífellt vaxandi mikilvægi eftirlitsstjórnvalda í hverju landi og samstarfs þeirra við önnur eftirlitsstjórnvöld innan EES til þess að tryggja öruggi neytenda á markaði. Rapex er tilkynningarkerfi eftirlitsstjórnvalda á Evrópska efnahagssvæðinu þar sem fram koma ábendingar til allra ríkja varðandi allar hættulegar vörur aðrar en matvæli, lækningavörur og lyf. Hlutverk þess er að miðla upplýsingum um hættulegar vörur eins fljótt og auðið er.

Í mars sl. var ársskýrsla Rapex birt fyrir árið 2013. Alls voru 2364 aðgerðir gerðar gegn hættulegum vörum það árið. Sú tala gefur til kynna að aðgerðum hefur fjölgað um 3,8% frá árinu 2012. Þetta staðfestir að Rapex er að sinna tilætluðu hlutverki sínu og heldur áfram að vaxa með ári hverju. Vöxtur Rapex tilkynningarkerfisins hefur verið mikill frá stofnun þess en tilkynningarnar hafa farið úr tæplega 200 árið 2003 í yfir 2000 tilkynningar á ári hverju. Algengasti vöruflokkurinn á árinu 2013 var ,,föt, vefnaður og tískuhlutirʻʻ. Næst flestar tilkynningar bárust vegna hættulegra leikfanga.

Neytendastofa vill því beina þeim tilmælum til framleiðenda að tryggja öryggi vara sem að þeir hyggjast setja á markað áður en að framleiðsla þeirra hefst með því að kynna sér þær reglur sem gilda um framleiðslu vörunnar áður en að mistök eða slys verða. Ef að framleiðendur verða varir við hættur eftir að vara hefur verið framleidd eða er komin á markað er mikilvægt að þeir afturkalli þær vörur og hafi samband við viðeigandi stjórnvöld. 

TIL BAKA