Vaxtagreiðsluþak óverðtryggðra húsnæðislána Íslandsbanka
Neytendastofu hefur tekið ákvörðun um að ekki sé ástæða til aðgerða í tilefni kvörtunar Hagsmunasamtaka heimilanna.
Stofnuninni barst kvörtun frá Hagsmunasamtökunum yfir markaðssetningu Íslandsbanka á þjónustu sem bankinn kallar „Vaxtagreiðsluþak óverðtryggðra húsnæðislána“. Hagsmunasamtökin bentu á að þjónustan feli ekki í sér raunverulega hámarksvexti heldur safnist upp áfallnir vextir, sem fari yfir svokallað þak, og bætist við höfuðstól lánsins. Með þessu formi sé ómögulegt að reikna út heildarlántökukostnað eða árlega hlutfallstölu kostnaðar.
Af hálfu Íslandsbanka var á það bent að ekkert í markaðsefni eða samningum og skilmálum gefi til kynna að um vaxtaþak eða hámarksvexti sé að ræða. Í auglýsingum sé gerð skýrlega grein fyrir ókostum vaxtagreiðsluþaksins sem feli í sér að höfuðstóll lánsins hækki ef vextir fari umfram vaxtagreiðsluþakið.
Í ákvörðuninni fjallaði Neytendastofa um að í lögum um neytendalán er sérstaklega fjallað um hvernig skuli reikna út heildarlántökukostnað og árlega hlutfallstölu kostnaðar þegar lán ber breytilega vexti. Í þeim tilvikum er við útreikning gert ráð fyrir því að upphafsvextir haldist óbreyttir út samningstímann. Í skilmálum samningsins þarf að gera grein fyrir því hvernig vextir kunni að breytast. Sú staðreynd að framtíðarhækkanir á vöxtum geti leitt til þess að hluti vaxta séu ekki greiddir á gjalddaga, heldur færist á höfuðstól lánsins, kemur því ekki til álita við útreikning á heildarlántökukostnaði eða árlegrar hlutfallstölu kostnaðar. Þá koma lög um neytendalán ekki í veg fyrir að samið sé um slíka framkvæmd.
Þá er fjallað um það í ákvörðuninni að Neytendastofa telur alla markaðssetningu og kynningu á þjónustunni skýra að því leyti að um greiðsluþak sé að ræða og því gefi það ekki tilefni til að ætla að samið sé um hámarksvexti.
Ákvörðunina má lesa í heild sinni hér.