Tilskipun um réttindi neytenda tekur gildi
Réttindi neytenda um alla Evrópu hafa verið styrkt með tilskipun um réttindi neytenda. Tilskipunin kveður á um réttindi neytenda hvar og hvenær sem þeir kaupa vöru eða þjónustu innan Evrópu, hvort sem er á netinu eða í verslunum. Lög sem innleiða tilskipunina í hverju og einu ríki innan EES taka gildi í dag en á Íslandi er innleiðingu þó ekki lokið. Sum af þeim réttindum sem tilskipunin færir neytendum eru nú þegar í gildi hér á landi en íslenskir neytendur þurfa að bíða lengur eftir því að njóta annarra réttinda sem tilskipunin felur þeim vegna viðskipta hér innanlands.
Það eru ekki bara neytendur sem njóta góðs af tilskipuninni heldur einnig verslanir af því að með hinum nýju reglum tilskipunarinnar er staða fyrirtækjanna jöfnuð hvar sem er í Evrópu sem gerir það að verkum að það verður ekki jafn kostnaðarsamt fyrir þau að selja vörur sínar yfir landamæri. Svo dæmi séu tekin felur tilskipunin í sér að allsstaðar í Evrópu koma neytendur til með að eiga 14 daga rétt til að skipta um skoðun og falla frá samningi um kaup á netinu. Áður var þessi frestur að lágmarki 7 dagar en neytendur á Íslandi hafa lengi notið þessa 14 daga réttar sem nú hefur verið samræmdur á öllu EES-svæðinu. Í nýju reglunum felst líka bann við því að taka greiðslugjald þegar greitt er með korti og bann við því að fyrirfram sé hakað í reiti um kaup á viðbótarþjónustu (t.d. þegar keyptir eru flugmiðar á netinu). Til þess að ganga úr skugga um að nýju reglunum verði beitt eins í allri Evrópu og til þess að neytendur njóti góðs af samræmdum reglum, óháð því í hvaða Evrópuríki þeir búa, mun Evrópusambandið gefa út leiðbeiningar fyrir stjórnvöld ríkjanna þar sem m.a. verður að finna fyrirmynd að því hvernig hægt er að veita neytendum allar upplýsingar sem þeir eiga rétt á að fá um stafrænar vörur.
„Í dag er Evrópa að stöðva það að neytendur séu plataðir í viðskiptum á netinu. Frá og með deginum í dag geta allir neytendur í Evrópu gert kröfu um að réttur þeirra samkvæmt tilskipun um réttindi neytenda séu virt, sem þýðir meðal annars enga fyrirfram hakaða reiti þegar flugmiði er keyptur, engin viðbótargjöld þegar greitt er með greiðslukorti og engir seljendur að segja þér að þú getir ekki skilað vöru sem þú kaupir á netinu“ segir Viviane Reding, varaforseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. „Það besta fyrir innri markað Evrópu eru öruggir neytendur. Það að auka traust neytenda er ódýrasta hvatakerfið sem Evrópa getur komið á. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins mun núna fylgjast ítarlega með því hvort aðildarríkin fylgja því sem samið hefur verið um með því að innleiða reglurnar rétt og veita neytendum þannig þau réttindi sem þeir eiga skilið.“
Nýja tilskipunin um réttindi neytenda samræmir reglur aðildarríkjanna um neytendarétt á nokkrum mikilvægum sviðum, til dæmis um þær upplýsingar sem neytendur þurfa að fá áður en þeir kaupa vöru eða þjónustu og rétt þeirra til að hætta við kaup á netinu. Aukin samræming þýðir að neytendur geta gengið að sömu réttindum hvar sem þeir versla í Evrópu. Það þýðir líka einfaldari og fyrirsjáanlegri reglur fyrir seljendur, sem hafa nú meiri hvata til að útvíkka markaðssvæði sitt yfir landamæri.
Með nýju reglunum geta neytendur nú treyst á:
• aukið gagnsæi í verði
• engin ósanngjörn viðbótargjöld fyrir að greiða með greiðslukorti
• bann við fyrirfram hökuðum reitum á netinu, til dæmis þegar keyptir eru flugmiðar
• framlengingu á tímanum sem þeir hafa til að hætta við viðskipti á netinu, úr 7 dögum í 14
• sterkari rétt til að fá endurgreitt, innan 14 daga frá því að neytandinn hætti við kaup
• reglur sem banna gildrur á netinu, til dæmis eins og auglýsingar sem bjóða eitthvað „frítt“ þegar það er það raunverulega ekki
• aukinn rétt tengt stafrænum vörum, sérstaklega varðandi upplýsingar um hugbúnað og vélbúnað (software and hardware).
10 helstu breytingarnar fyrir evrópska neytendur
1. Reglurnar eyða földum gjöldum og kostnaði á netinu.
Neytendur verða varðir fyrir „gjalda gildrum“ á netinu. Þetta á við þegar reynt er að villa um fyrir neytendum með því að láta þá greiða fyrir vöru eða þjónustu sem sögð er „frí“. Héðan í frá þurfa neytendur að staðfesta sérstaklega að þeir geri sér grein fyrir að greiða þurfi fyrir vöruna eða þjónustuna.
2. Aukið gagnsæi í verði
Seljendur verða að tilgreina endanlegt verð á vöru eða þjónustu auk allra annarra viðbótargjalda. Neytendur sem versla á netinu þurfa ekki að greiða viðbótar- eða aukagjöld ef þau voru ekki sérstaklega kynnt fyrir þeim áður en kaupin fóru fram.
3. Bann við fyrirfram hökuðum reitum (pre-ticked boxes)
Þegar keypt er á netinu – til dæmis þegar keyptur er flugmiði – getur þér verið boðið að kaupa viðbótarþjónustu á meðan á kaupferlinu stendur, eins og ferðatryggingu eða bílaleigubíl. Þessi þjónusta getur verið boðin með haki í sérstaka reiti sem fyrirfram hefur verið hakað í. Eins og staðan hefur verið hafa neytendur þurft að taka hakið úr þessum römmum ef þeir vilja ekki kaupa viðbótarþjónustuna. Með nýju tilskipuninni verða fyrirfram hakaðir reitir bannaðir allsstaðar í Evrópu.
4. 14 daga frestur til að hætta við kaup á netinu
Tímafresturinn sem neytendur hafa til að hætta við og falla frá kaupsamningi er lengdur í 14 daga (frá 7 dögum í sumum Evrópuríkjum). Þetta þýðir að neytandinn getur skilað vörunni af hvaða ástæðu sem er ef hann skiptir um skoðun.
- Aukin vernd vegna upplýsingaskorts: Ef seljandi hefur ekki veitt neytandanum skýrar upplýsingar um rétt til að falla frá samningi framlengist fresturinn í eitt ár.
- Neytendur verða einnig verndaðir og njóta réttar til að falla frá samningi fyrir skipulögðum heimsóknum eins og þegar hringt hefur verið í neytandann og hann fenginn til að samþykkja heimsókn frá seljandanum. Því til viðbótar er ekki lengur gerður greinarmunar á skipulagðri eða óvæntri heimsókn til að koma í veg fyrir að farið sé í kringum reglurnar.
- Réttur til að falla frá samningi er útvíkkaður á uppboð á netinu, til dæmis á eBay – en vörur sem keyptar eru á slíkum uppboðum verður aðeins skilað ef seljandinn er fyrirtæki.
- Tíminn sem réttur til að falla frá samningi reiknast frá er sá dagur sem neytandinn fékk vöruna í hendur, í stað þess tíma sem samningurinn var gerður eins og staðan er í dag. Reglurnar munu eiga við um viðskipti á netinu, í síma- og póstsölu, auk húsgöngusölu, sölu á götumörkuðum, í heimakynningum eða skoðunarferðum sem seljandi skipuleggur.
5. Betri endurgreiðsluréttur
Seljendur verða að endurgreiða neytendum það sem greitt hefur verið innan 14 daga frá því að neytandinn fellur frá samningi. Þetta tekur líka til sendingarkostnaðar. Almennt séð þarf seljandinn að bera áhættuna af því að vara skemmist við sendingu, þangað til neytandinn veitir vörunni viðtöku.
6. Samevrópskt eyðublað um að hætt verði við kaup
Neytendum verður séð fyrir formi að eyðublaði sem þeir geta (en eru ekki skyldugir til) að nota ef þeir hætta við og vilja falla frá kaupum. Þetta kemur til með að auðvelda og flýta fyrir ferlinu þegar fallið er frá kaupum, hvar í Evrópu sem samningurinn var gerður.
7. Greiðslugjaldi eytt
Seljendur munu ekki geta krafið neytendur um gjald fyrir að greiða með greiðslukorti (eða einhverjum öðrum greiðsluleiðum) umfram það sem það raunverulega kostar seljandann að bjóða þessa greiðsluleið. Seljendur sem eru með símaver þar sem neytendum gefst kostur á að hafa samband við þá vegna samningsins munu ekki geta rukkað meira fyrir símtölin en almenn símtalsgjöld.
8. Skýrari upplýsingar um hver á að greiðir fyrir skil á vörum
Ef seljandi vill að neytandinn standi straum af sendingarkostnaði þegar hlutnum er skilað þarf það að koma fram með skýrum hætti áður en salan fer fram, annars verður seljandinn að greiða kostnaðinn. Seljendur verða með skýrum hætti að gefa upplýsingar um kostnað sem því fylgir eða a.m.k. viðmið um kostnaðinn. Með þessu geta neytendur byggt ákvörðun um það hvar þeir kaupa vöruna á því hversu mikill kostnaður fylgi því að skila vörunni, ákveði þeir að nýta þann rétt sinn.
9. Aukin réttindi vegna stafrænnar vöru
Upplýsingar um stafrænar vörur þurfa að vera skýrar, þar með taldar upplýsingar um samhæfni hugbúnaðar og vélbúnaðar og hvort nýttar séu einhverjar réttindavarnir eins og takmörkun á því hvort neytandinn geti tekið afrit af efninu.
Neytendur eiga rétt á að falla frá kaupum á stafrænum vörum eins og tónlist eða myndböndum, en aðeins fram að þeim tíma sem raunverulegt niðurhal hefst.
10. Samræmdar reglur auðvelda fyrirtækjum viðskipti yfir landamæri
Þetta felur í sér:
- Sömu reglur fyrir alla húsgöngu- og fjarsölu (síma-, póst- og netsölu auk sölu á mörkuðum, kynningum og á heimili neytandans) í allri Evrópu. Þetta felur í sér að staða fyrirtækjanna er jöfnuð og dregur úr viðskiptakostnaði fyrir fyrirtæki sem selja yfir landamæri, sérstaklega í viðskiptum á netinu.
- Staðlað eyðublað með öllum nauðsynlegum upplýsingum gerir fyrirtækjunum auðveldara fyrir þegar neytendur hætta við kaup.
- Sérstakar reglur gilda um lítil fyrirtæki og iðnaðarmenn. Neytendur njóta ekki réttar til að hætta við kaup og falla frá samningi fyrir aðkallandi viðgerðir og viðhald. Aðildarríkin mega ákveða að minni kröfur séu gerðar til upplýsingagjafar vegna þjónustukaupa um viðhald eða viðgerðir sem unnar eru á heimili neytenda og eru að minna verðmæti en €200.