Ástand verðmerkinga á Akranesi og Borgarnesi
Dagana 10. – 12. júní sl. voru verðmerkingar kannaðar í 38 fyrirtækjum á Akranesi og Borgarnesi. Af þessum 38 fyrirtækjum fengu átta þeirra fyrirmæli frá Neytendastofu um að bæta ástand verðmerkinga.
Farið var í 23 sérvöruverslanir, 10 á Borgarnesi og 13 á Akranesi. Athugað var hvort verðmerkingar inni í verslun og sýningarglugga væru í lagi. Þær verslanir sem gerðar voru athugasemdir við eru Borgarsport Hyrnutorgi, Ozone Kirkjubraut , verslunin Nina Krikjubraut og @home Stillholti. Í öllu verslununum vantaði verðmerkingar á vörur í sýningarglugga.
Tvö bakarí voru heimsótt og athugað var hvort vörur í borði, hillu og kæli væru verðmerktar. Hjá Brauða og Kökugerðinni Suðurgötu vantaði verð á drykki í kæli.
Sex hárgreiðslustofur voru heimsóttar og athugað var hvort verðlisti yfir alla þjónustu væri til staðar, einnig var kannað hvort allar söluvörur væru verðmerktar. Hjá Classic hárstofu Smiðjuvöllum vantaði bæði verðlista yfir þjónustu og verð á söluvarningi.
Farið var á fimm veitingahús og athugað hvort matseðill væri við inngöngudyr og hvort magnupplýsingar fylgdu verðskrá drykkja. Gerð var athugasemd við tvö veitingahús, Gamla Kaupfélagið Kirkjubraut þar sem vantaði bæði matseðil við inngöngudyr og magnupplýsingar á verðskrá drykkja og svo Hótel Borgarnes þar sem einnig vantaði magnupplýsingar drykkja.
Einnig voru tvö pósthús heimsótt og engin athugasemd gerð við verðmerkingar þar.
Neytendastofa mun halda áfram verðmerkingaeftirliti sínu og gera athugun hjá fleiri fyrirtækjum. Neytendur geta komið ábendingum á framfæri í gegnum rafræna Neytendastofu.