Fara yfir á efnisvæði

Samræmi milli hillu- og kassaverðs athugað

20.06.2014

Dagana 10. – 12. júní sl. voru verðmerkingar kannaðar á Akranesi og Borgarnesi. Heimsótt var 21 fyrirtæki, apótek, byggingavöruverslanir, matvöruverslanir og bensínstöðvar.
Farið var í tvö apótek,  Lyfju Borgarbraut og Apótek Vesturlands. Þar sem samræmi á milli hillu- og kassaverðs var athugað og verðmerkingar almennt. Reyndust hvorug apótekin vera með verðmerkingar í lagi.
Tíu bensínstöðvar voru heimsóttar og  tíu vörur teknar af handahófi og athugað samræmi milli hillu- og kassaverðs. Tvær bensínstöðvar Stöðin Brúartorgi og Olís Esjubraut fengu áminningu frá Neytendastofu um að koma verðmerkingum sínum í lag. Á báðum stöðvum vantaði verð á vörur í kæli, sælgæti, bakkelsi og fl.
Farið var í sjö matvöruverslanir þar sem valdar voru 50 vörutegundir af handahófi og athugað samræmi milli hillu- og kassaverðs. Ekki var gerð nein athugasemd við verðmerkingar, allar matvöruverslanirnar komu mjög vel út. 

Byggingavöruverslanir komu mjög illa út. Farið var í Húsasmiðjuna Akranesi og á Borgarnesi þar sem 25  vörur voru teknar af handahófi og athugað samræmi milli hillu og kassaverðs auk þess sem farið var almennt yfir hvort vörur væru verðmerktar. Á báðum stöðum var mikið ósamræmi á milli hillu- og kassaverðs, 12 vörur af 50 eða 24% voru vitlaust verðmerktar þegar komið var á kassa einnig voru ýmsar vörur óverðmerktar í verslununum. 
Augljóst er að verðmerkingar eru langt frá því að vera viðunandi og þurfa verslunareigendur að fara vel yfir verðmerkingar og verklag í verslunum sínum og bregðast fljótt við fyrirmælum Neytendastofu til að forðast sektir. Stofnunin hvetur neytendur til að vera vakandi um verð vöru þegar gengið er frá greiðslu, þar sem töluvert ósamræmi getur verið á hillu- og kassaverði.

TIL BAKA