Innkaup frá Kína – gætum að CE merkingum
Í tilefni af gildistöku á fríverslunarsamningi milli Íslands og Kína vill Neytendastofa benda neytendum og öðrum innflytjendum að gæta þess að vörur uppfylli allar kröfur íslenskra laga og reglugerða. Í því sambandi vill stofnunin benda á að í Kína fer fram umsvifamikil framleiðsla á vörum fyrir öll markaðssvæði heimsins. Ísland er aðili að Evrópska efnahagssvæðinu en það þýðir að hér á landi gilda samevrópskar reglur um öryggi vöruframleiðslu sem og samhæfðir evrópskir staðlar um fjölmargar vörur. Almennt verða neytendur því að gæta þess við innkaup að vörur beri CE-merki þegar að slík vara fellur undir samhæfða evrópska vörulöggjöf. Vörur sem ekki uppfylla kröfur er almennt ekki leyft að flytja inn til landsins og geta verið stöðvaðar við tollskoðun og fást ekki afhentar. Dæmi um vörur sem falla undir slíka löggjöf eru leikföng, mælitæki, lækningatæki og margvíslegar fleiri vörutegundir.
Nánari upplýsingar geta neytendur fundið á íslensku á sameiginlegri EES-upplýsingavefsíðu um CE-merkingar sjá hér.