Vörur skoðaðar hjá Neytendastofu
Á síðasta ári voru gerðar skoðanir á grundvelli 2670 ábendinga. Algengustu ábendingar voru vegna almennrar vöru (s.s.kerti, bifreiðar, húsgögn, kveikjarar, fatnaðar) síðan leikfanga, barnavara og raffanga. Auk þess bárust 11 tilkynningar frá lögreglunni. Sem betur fer var oftast í lagi með vörurnar. Algengast var að merkingar væru ekki í lagi eða að fullnægjandi upplýsingar vantaði með vörunni. Neytendastofa þurfti þó að gera ráðstafanir vegna yfir 100 vara þar sem þær voru ekki í lagi og gátu skapað hættu fyrir neytendur. Í ár er áhersla Neytendastofu á öryggi barna, verið er að skoða bönd og reimar í barnafatnaði, þá sérstaklega íslenska framleiðslu ásamt öðrum vörum sem tengjast börnum. Þá sinnir Neytendastofa einnig ábendingum eftir sem áður sem berast frá neytendum og að eigin frumkvæði.