Auglýsingar mbl.is brot á lögum
365 miðlar kvörtuðu til Neytendastofu yfir auglýsingum Árvakurs þar sem fram komu fullyrðingar um vinsældir vefsins mbl.is. Um var að ræða útvarpsauglýsingar þar sem hinn lesni texti hljóðaði svo:
„100 þúsund fleiri Íslendingar lesa mbl.is en vísir.is, Íslendingar lesa mbl.is“ og „Lestur á mbl.is er tvöfalt meiri en á vísir.is. Íslendingar lesa mbl.is. “
Einnig var kvartað undan auglýsingum í Morgunblaðinu og á mbl.is með slagorðunum „15 ár á toppnum“ og „Vinsælastur í 15 ár“. Árvakur hafnaði því að auglýsingarnar væru villandi eða ósanngjarnar eða að þær brytu á nokkurn hátt gegn lögum um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu eins og 365 miðlar héldu fram. Þrátt fyrir það var birtingu útvarpsauglýsinganna hætt.
Neytendastofa hefur fjallað um kvörtunina og telur stofnunin að Árvakri hafi tekist að sanna fullyrðingar um 15 ár á toppnum og Vinsælastur í 15 ár en útvarpsauglýsingar Árvakurs hafi brotið gegn lögum nr. 57/2005 með fullyrðingum í útvarpsauglýsingum.
Ákvörðunina má lesa í heild sinni hér.